09.11.2010 21:13

Að velja sér eiginmann !!

 Þú ert í sambúð spurði ég hikandi þó ég vissi reyndar svarið.

 Konan þagði við nokkra stund, svo sagði hún mér að hún væri meira að segja hamingjusamlega gift.

 Og hvaða aðferð notaðir þú við valið á eiginmanninum spurði ég ?

 Enn þagði konan nokkra stund og ég fékk á tilfinninguna að hún væri farin að sjá eftir að hafa hringt í mig.
 Nú mér leist bara vel á hann, betur en hina vitleysingana og svo þróaðist þetta hratt sagði hún svo.

Já sagði ég, þú skalt bara nota akkúrat þessa aðferð.

 Hún hafði hringt í mig og rifjað upp fyrir mér þegar hún keypti hvolp af mér fyrir nokkrum árum.

Ég mundi vel eftir því, vegna þess að þegar hún hringdi  átti ég eftir 3 tíkur og hún ákvað að fá eina.
Hún lagði mikla áherslu á að fá " besta" hvolpinn og þar sem hún vissi af ferð til sín eftir nokkra daga fól hún mér að velja hann.

Ég ákvað þá að gera þetta "almennilega"  varð faglegur í röddinni og spurði konuna um fjölskylduna , aldurinn á börnunum , bústofninn , fyrri hundaeign o.sv. frv.
 Tveim dögum seinna hringdi ég í hana og sagðist hafa valið þann hvolpinn sem myndi henta þeim algjörlega. Hún myndi verða MJÖG ánægð með hann (tíkina).

 Þrem  dögum seinna kom sonur hennar og tók tíkina í nýju vistina.

 Og núna nokkrum árum seinna hringdi konan og sagði (mér til mikillar undrunar) að allt sem ég hefði sagt henni  um hvernig hvolpurinn yrði, hefði staðist eins og stafur í bók.
 Tíkin sín hefði hinsvegar slasast fyrir nokkru og nýttist ekki við bústörfin en hún hefði eignast hvolpa  og nú þyrfti hún að velja sér einn úr hópnum (þann besta) til að halda eftir.
 
Ég átti að kenna henni aðferðina til þess. Nema hvað.

Og það var þá sem ofanritað samtal átti sér stað.

Þótt hún virtist ekki kaupa það alveg að ekki væri eitthvað í fasi eða framkomu hvolpanna sem gerði útslagið um framgöngu þeirra í lífinu, virtist henna létta nokkuð við þetta svar.

 Hún sagði mér svo, að henni þætti nú eiginlega vænst um einn í hópnum og hvort það væri  þá í lagi að velja hann.
Ég fullvissaði hana um að þetta væri að öllum líkindum rétti hvolpurinn.

Hinsvegar sleppti ég því að benda henni á, að ef svo ólíklega vildi til að hvolpurinn yrði hávær, vælusamur, latur og áhugalaus gæti hún losað sig við hann með einum  eða öðrum hætti.

Það hefði getað orðið snúnara með eiginmanninn.  

Flettingar í dag: 200
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 1053
Gestir í gær: 39
Samtals flettingar: 423649
Samtals gestir: 38560
Tölur uppfærðar: 4.5.2024 15:10:47
clockhere