10.10.2010 07:06

Ævintýraland og örnefni.

Hvort heldur ég mæti í Tungurnar (Geithellistungur) þungvopnaður til að kanna hvort óvelkomin refahjón hafi tekið sér ábúð hjá mér, eða á smalaskónum að elta rollur fylgir því alltaf ákveðin notalegheit fyrir sálina að koma þar.

 Það eru um 50 ár síðan ég byrjaði að skondrast þar um í leitum með eldri systkinum og á þeim tíma hefur viðhorf mitt til landsins og alls annars, trúlega breyst miklu meira en ég geri mér grein fyrir.


 Moldarmúlinn og Leirdalurinn innan hans er  innsti hlutinn Tungnanna  en í Leirdalnum  á Núpáin upptök sín

Náttúruundrin í landinu á þessu tiltölulega litla svæði eru alveg ótrúleg og þó ég hafi eflaust á fyrstu árunum litið á þennan ævintýraheim sem eðlilegasta hlut í heimi er langt síðan ég áttaði mig á því þessi hluti alheimsins er býsna sérstakur.


 Ég hljóp  framhjá fossaröðinni framanvið Moldarmúlann í den án þess að sjá hana en núna hef ég alltaf tíma til að staldra við en mislengi samt.
Snúi ég mér við á þessum punkti og líti niður ána blasir þetta við.

.

 Ef ég hefði lagt fyrir mig jarðfræðinám  gæti ég útskýrt þetta nánar en þetta er allavega flott.

Þetta  gil hér heitir ýmist Illagil eða Moldarmúlagil og liggur sunnan Múlans og á upptök sín milli Skyrtunnu og Svörtufjalla.



Skyrtunnan er trúlega eitt af þekktustu örnefnum Snæfellsnessfjallgarðsins.
Hún kemur beint uppaf Moldarmúlanum og hér  eftir hryggnum  er greiðasta leiðin uppá hana.

 Ég velti því fyrir mér á tímabili hvort hefði orðið til á undan, þjóðsagan um tröllkonuna eða örnefnin sem tengjast sögunni en hvorutveggja hefur allavega fylgt okkur um aldir.



 Aðeins sunnar en Skyrtunnan eru Svörtufjöll og til hægri Steinahlíðarkollurinn. Milli Kollsins og myndsmiðsins er svo Illihryggur.



 Samkvæmtum kortum og öðrum heimildum heitir þetta móbergsfjall " Svartafjall" ( eða Svartfjall).
Það er hinsvegar mjög sterk málvenja fyrir því hér á svæðinu, allavega aftur til 19 aldar að talað er um það í fleirtölu "Svörtufjöll".


Hér er horft niður Grenstrípsgilið með Grenstrípinn til hægri. Neðar glittir i Núpána og uppaf henni liggja Eyjalágarnar til vesturs.



 Hér horfum við á Grenstrípsgilið úr hinni áttinni með Grenstrípinn til vinstri. Steinahlíðin og Svörtufjöll í baksýn.


 Hér sést munninn á hellinum sem talið er að Tungurnar beri nafn af. Að vísu eru tveir aðrir hellar á svæðinu en samkvæmt Kristjáni Eggertsyni ( f.1873 d. 1953) hefur þessi heitið Geithellir allavega frá því snemma á 19 öld.



 Það er svo rétt að ljúka þessari sunnudagsandagt með þessum kletti sem er þar sem Háihryggurinn ( neðri mörk Tungnanna) endar í Núpárgilinu. Og þó ótrúlegt sé hef ég ekki nafn á hann.emoticon 
 

Flettingar í dag: 1830
Gestir í dag: 113
Flettingar í gær: 2949
Gestir í gær: 288
Samtals flettingar: 432758
Samtals gestir: 39916
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 09:16:06
clockhere