14.08.2010 21:42

Stressdagur að baki.

Þó ég verði sífellt rólegri með aldrinum og reyni að forðast stressið af alefli koma alltaf slæmir dagar öðruhvoru.

 Gærdagurinn var ekki alslæmur en afleitur á köflum.

 Ég átti tíma í bænum kl. 12.15 og fund á Selfossi kl 2.
Síðan varð ég að ná í BM Vallá í Fornalundi fyrir lokun kl 6, og þetta leit bara allt vel út um morguninn.

 Á leiðinni í bæinn átti ég reyndar að koma við á Skaganum og taka pakka á Selfoss og þá byrjuðu vandræðin.
Þegar til kom þurfti ég að ræsa út mann til að ná pakkanum og þetta tók tíma og það var stress að ná í bæinn kl 12.15.
Þá hafði eitthvað komið uppá þar og ég þurfti að bíða til kl eitt.

Fundartíminn stressaði mig þó ekki mikið því þar gerðist ekkert fyrr en ég og félagi minn, sem fékk far úr bænum, mættum.

 Fundurinn dróst hinsvegar á langinn og í stað þess að enda rúmlega 4 lauk honum ekki fyrr en vel að ganga 6 og nú var þröngt á að ná í Vallá fyrir lokun.

Þar þurfti ég að ná út kantsteinum í hellulögn en miklar planframkvæmdir standa yfir í Dalsmynni.


Ég er orðinn mikill sérfræðingur í hellulögnum en ætla pottþétt ekki að leggja það fyrir mig.

Til stóð að loka því máli um helgina og nokkra viðbótarsteina bráðvantaði til þess.

Þetta stóð glöggt og litlu munaði að rautt ljós á Höfðabakkanum rústaði málinu.

Tvær mín. yfir 6 slapp ég inn í afgreiðsluna og var svo stálheppinn að þarna var alvöru afgreiðslumaður sem seldi mér umsvifalaust 20 kantsteina þrátt fyrir að vera hættur þennan föstudag ( og meira að segja 13. mánaðarins).


Steinarnir komnir á sinn stað og á morgun verður væntanlega fyllt að þeim og hellulagt.
Það verður ekki slæmt mál þegar sést fyrir endann á plandæmunum.

 Einn gutti var eftir á planinu sem reddaði mér steinunum og nú var næsta mál að komast í einhverja búllu til að næra mig.
 En uppistaða í neyslu dagsins síðan morgunmat lauk var svart kaffi.

Og það var enn meiri léttir en vanalega þegar ég var kominn fyrir Kollafjörðinn á leið í stresslausa sveitina.emoticon

Og ein kennslustund með frábært fjárhundsefni kom mér aftur í rétta gírinn.emoticon

Flettingar í dag: 2142
Gestir í dag: 138
Flettingar í gær: 2949
Gestir í gær: 288
Samtals flettingar: 433070
Samtals gestir: 39941
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 13:23:23
clockhere