04.06.2010 21:07

Kvöldblíðan lognværa.... - og móðurlausu lömbin.

Blíðan í sveitinni er algjörlega ótrúleg þessa dagana og þegar maður kemst út í náttúruna fyllist maður tilfinningu sem mig skortir hugarflug til að lýsa. (Segi nú svona).



 Svona var útsýnið í vestur úr Laxárbakkaflóanum í stafalogni gærkveldi. Jökullinn kúrði vestast á fjallgarðinum í blámóðunni, umlukinn Snæfellsbæingum sem eru að vonum stoltir yfir því að hafa hann inni í miðju sveitarfélaginu.
 Vonandi verður þessi eldstöð róleg á næstunni og ég er allavega rólegur meðan eldgosasérfræðingurinn á Bessastöðum fer ekki að vara okkur við. Það er svo náttúrulega ótrúlega langt frá síðasta fjölmiðlagosi á þeim bæ.


Hafursfellið stendur nú líka fyrir sínu og grenjaskyttan sem er að skanna flóann fellur vel inn í umhverfið. Það gerir fjórhjólaslóðinn okkar nú reyndar líka. (Finnst mér).

Það var töluvert fuglalíf þarna þrátt fyrir óþarflega stóran rebbastofn á svæðinu og mikil ró yfir öllu á þessum hluta flóavíðáttunnar sem sagði okkur að rebbarnir væru ekki á stjái akkúrat núna.

 Mig grunaði þó að eftir því sem austar kæmi myndi daprast rækilega yfir fuglaflórunni og því miður gekk það eftir.

 Klukkan var komin vel yfir miðnætti þegar ég gekk fram á þessi móðurlausu lömb en þá var ég nú kominn yfir í Eyjarhreppinn í annað flóaflæmi sem kennt er við Rauðamel.



 Það var orðin napurt í næturgolunni og sló illilega á stemminguna að ganga fram á þau köld og svöng og engin kind sjáanleg nokkursstaðar í grenndinni. Það var bara smellt af mynd og svo lét maður sig hverfa án þess að raska ró þeirra frekar.

 Þau munu ekki rétta af afkomuna hjá henni Þóru vinkonu minni í haust.

Og mórauða læðan sem er á því svæði, komst ekki í neina hættu þetta kvöldið.

Flettingar í dag: 2188
Gestir í dag: 156
Flettingar í gær: 2949
Gestir í gær: 288
Samtals flettingar: 433116
Samtals gestir: 39959
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 15:05:05
clockhere