11.05.2010 01:02

Þegar Bæjarhraunsgrenið fannst - og vannst.

 Það sló verulega á norðaustan belginginn þegar við komumst í var við hraunið.

Klukkan var rúmlega 9 að kveldi þennan föstudag og spenningur í loftinu, því framundan var nýfundið greni sem átti að hreinsa upp um nóttina.

 Það var enginn annar en stórskyttan og refabaninn , mágur minn hann Bjarni á Kálfárvöllum sem hafði fundið grenið um morguninn.

Hann var í vegavinnu á svæðinu  og í fyrstu ferð um morguninn sá hann tófu skjótast yfir veginn og upp vikurbrúnina að Bæjarhrauninu á Ytri Rauðamel.

 Hann vissi að þarna var einhversstaðar greni sem leitað var að, og brá skjótt við og fór í humáttina á eftir lágfótu og sá hvar hún hvarf inn í hraunkantinn.

 Séð yfir Bæjarhraunið að hluta og yfir á Austubakkann. Þarna er mikið framboð af húsnæði fyrir rebbana jafnvel meira en húsnæðisframboðið fyrir þá tvífættu að lokinni hrunveislunni.

 Eftir að hafa séð úr fjarlægð hvar hálfvaxnir hvolparnir tóku á móti læðunni hélt hann vegagerðinni áfram enda stresslaus maður.

 Á þessum árum var ég oftast einn að dunda í grenjavinnslunni og þegar Bjarni sagði mér þessi tíðindi á leið heim í helgarfríið seinnipart dagsins sagði ég honum það strax að hann yrði að loka málinu með mér um kvöldið.

 Þetta var í áliðnum júlí og helgin hjá mér bókuð í annað og þar sem hann hefði komið mér í þessa klípu yrði hann að klára dæmið með mér.

 Og þarna vorum við mættir.

Þegar við sáum heim á grenið voru yrðlingarnir á leik og annað fullorðna dýrið hjá þeim.

Við tókum stóran sveig til hliðar og laumuðumst inn í ógreiðfært hraunið til að reyna að komast í
færi en þarna voru greinilega erfiðir staðhættir til að liggja, og við allsendis ókunnugir aðkomuleiðum dýranna.

 Þegar við töldum okkur vera að komast í færi urðum við varir við dýrið af greninum, þar sem það var komið í vindáttina af okkur. Það var í ágætu færi og var hið rólegasta að spá í þessa óboðnu gesti.

 Feilskotin eru alltaf jafn dj. fúl en við félagarnir sögðum þó fátt þegar hausinn á rebba hvarf niður fyrir hraundranginn sem hann hafði kíkt yfir, eftir að kúlan hafði farið eitthvað annað en áætlað var.

 Við sáum hann síðan birtast á vikuröldu talsvert frá og hann var ekki kvekktari en það, að þar settist hann og íhugaði hvað væri í gangi.

 Nú var þetta orðið alvöru færi og nú vandaði Bjarni sig.

Handsmíðaði riffillinn stóð undir væntingum í þetta sinn og þarna féll hvítur refur.
Það vaklti furðu okkar hvað holdafarið var gott á dýrinu miðað við hvolpahópinn og það að áliðið var sumars og væntanlega mikið starf að bera björg í bú.

 Nú var að koma sér fyrir og eftir miklar bollaleggingar settist Bjarni að í færi við grenið en ég fór aðeins suður með hraunkantinum til að taka á móti læðunni ef hún kæmi þá leiðina.

 Klukkan var langt gengin í eitt þegar ég heyrði skothvell af greninu og þar stóð félaginn yfir mórauðu dýri þegar ég kom að.

Þetta reyndist hinsvegar líka vera  refur, mórauður á lit og var greinilega önnur fyrirvinna heimilisins, og öllu magrari en sá sem fyrr féll.

 Nú var ekki um annað að ræða en koma sér fyrir á nýjan leik og bíða læðunnar ef hún væri ekki búin að verða vör við okkur í þessum barningi.

 Ég hafði komið mér fyrir undir stórum hraunkletti og á vinstri hönd var gjá þvert inn í hraunið.

Þarna hafði ég góða yfirsýn eftir fjárgötu sem lá þarna með hraunjaðrinum og markmiðið að ná læðunni áður en hún tæki lykt af greninu, kæmi hún þessa leiðina.

Þetta virtist ætla að taka tímann og klukkan farin að halla í 3.

 Allt í einu kemur lágfóta á mikilli ferð út úr hrauninu og er um 4-5 m. frá mér þegar við verðum vör hvort við annað.
 Þegar hún verður vör við mig var nú frekar gefið í, tekin vinkilbeygja og gatan tekin á öllu útopnu.

 Hún hefur væntanlega átt sér einhverja leið gegnum hraunið, tekið lykt af Bjarna á greninu og ákveðið að koma sér í burtu hið snarasta.

 Ég var hinsvegar með haglarann í lúkunum í þetta sinn og þetta var akkúrat augnablikið sem ég var heppinn  en lágfóta óheppin.

 Þetta reyndist vera hvít læða nokkuð komin til ára sinna.



 Næstu árin var yfirleitt á þessu greni og alltaf sömu vandamálin að koma sér fyrir þannig að skyttan væri ánægð með vinnuaðstöðuna.

 Nú hefur ekki verið á Bæjarhraunsgreninu í nokkur ár en einhversstaðar á svæðinu er komið greni sem er í notkun á hverju vori.

 Og  ég er löngu búinn að leggja haglabyssunni inni í skáp og held mig alfarið við riffilinn í viðureigninni við lágfótu.

Áhugamenn um vetraveiði ættu svo að kíkja á þetta myndband. HÉR.

Flettingar í dag: 434
Gestir í dag: 41
Flettingar í gær: 425
Gestir í gær: 57
Samtals flettingar: 421604
Samtals gestir: 38455
Tölur uppfærðar: 1.5.2024 12:57:25
clockhere