10.05.2010 02:48

Ógæfumenn og tveir áfangar inn í sumarið.

Ógæfumennirnir sem settu skerið á hliðina s.l. áratug áttu sér fyrst og fremst eitt "göfugt "markmið.

Að láta peningana vinna fyrir sig.

 Við sem að þreyjum þorrann og góuna í sveitinni erum sífellt að láta jörðina  vinna fyrir okkur með ýmsum hætti.

 Við gerum okkur það hinsvegar flestir ljóst að við megum ekki taka meira en innistæða er fyrir.

Á þessum árstíma finnst okkur mikilvægar en flest annað að koma  búfjáráburðinum á eða í jörðina svo okkar stutta sumar geti farið að nýta hann og gera úr honum verðmæti.

 Við vitum líka að sáðbyggið er ekki að vinna fyrir okkur í sekkjununum inní skemmu.

Það fer svo að styttast í að koma þurfi innflutta áburðinum á túnin svo þau skili sínu.

Og grasið þarf að slá á réttum tíma svo hægt sé að hámarka arðinn af því.

 Rétt eins og hjá vatnsgreiddu köppunum með " peningana" nú eða pappírinn, er áhættan
margvísleg sem við glímum við í búrekstrinum.

 Stórrigningin sem kemur ofaní nýáborinn áburð getur sett hann í skurðina.

Byggræktin, heyskapurinn og þetta allt saman er endalaust lotterí frá upphafi til enda.
 
Það gerir þetta samt allt svolítið spennandi.

 Við Dalsmynnisbændur náðum á leið okkar inní sumarið tveimur góðum áföngum í sl. viku.

Við lukum allri skítadrerifingu þetta vorið og náðum að bera á öll tún.

Þau sem fengu skít í haust fengu meira að segja smá viðbót til að gulltryggja uppskeruna því nú er innflutti áburðurinn skorinn niður eins og þorandi er.

 Byggsáningunni lauk svo um helgina og hefur nú verið sáð byggi í rúma 20 ha. sem er nýtt Dalsmynnismet.

 Það er þó óvíst að uppskerumet síðasta hausts verði slegið, því nú er mikil  tilraunastarfsemi í gangi.

 Í fyrsta lagi er notaður búfjáráburður á flesta akrana og einungis bætt við köfnunarefnisáburði.

Í öðru lagi var tekin sú ákvörðun að láta reyna á neðri þolmörk áburðargjafarinnar en við höfum gjarnan haldið okkur í þeim efri, til að hámarka uppskeruna.

Það hefur hugsanlega þýtt að akrarnir eru grænir fram eftir hausti sem hentar illa fyrir okkur sem þurrkum uppskeruna.

 Ef byggið hverfur ekki í arfa vegna búfjáráburðarins verður spennandi að sjá uppskeruna því notaður voru mismunandi áburðarskammtar.

Þetta eru að vísu dálítið stórir tilraunareitir og niðurstaðan  verður  aldrei mjög nákvæm vísindalega séð.
 Kannski segir þetta  okkur  samt mun meira, en hárnákvæmar vísindalegar ræktunartilraunir sem manni finnst einhvernveginn að skili niðurstöðum sem passa ekki við okkar reynslu sem berjumst úti á mörkinni.

 Semsagt allt í góðum gír í sveitinni og hlutirnir á réttari tíma en oftast áður.

Og algjörlega vonlaust að kvarta yfir vortíðinni.

Enn sem komið er.emoticon
Flettingar í dag: 184
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 425
Gestir í gær: 57
Samtals flettingar: 421354
Samtals gestir: 38440
Tölur uppfærðar: 1.5.2024 07:16:00
clockhere