06.05.2010 02:40

Vökuvakt á sauðburði.- Myndir.

 Það er logn og niðaþoka þegar ég dóla mér í húsin á fimmta tímanum.

Þó ég leggi við hlustir heyri ég ekki þungu dimmu dynkina sem heyrðust í gærmorgun.
Þeir höfðu minnt mig á skot úr stórum riffli með hljóðdeyfi og mér létti nokkuð þegar ég heyrði í hádegisfréttunum að drunurnar í gosinu hefðu heyrst vestur á Mýrar.

 Þá lá semsagt  fyrir að dynkir úr gosi í Eyjafjallajökli hefðu heyrst alla leið yfir á Vesturbakkann.

Og ég varð dapur inni í mér þegar mér varð hugsað til kolleka minna í sauðburði á öskusvæðinu með allt lambfé á húsi og framtíðina vægast sagt í óvissu.

 Guðný var enn á vaktinni þegar ég kom út og var að enda við að setja verðandi tvílembu í aðra fínu hestastíuna sína.  Ég hefði nú ekki þorað því sjálfur enda langagaður í samskiptum við húsfreyjur staðarins.


 Eitt var komið og hitt á leiðinni.



 Kindurnar eru hættar að taka eftir því þegar mætt er á vaktina, þó allt sprytti á fætur þegar komið var í húsin í upphafi sauðburðar.



 Hér hefur hún" Ömmu Hefu Grána", afastelpunnar gert sig heimakomna í rúllugrindinni en hún hafði ásamt  þremur öðrum geldum gemlingum verið sett í rolluhópinn þegar fór að þrengja að í gömlu fjóshlöðunni.


 Stallsystur hennar 3 sváfu svefni hinnar réttlátu við hliðina og hafa ekki hugmynd um að kannski verður þetta síðasta nóttin þeirra inni þetta vorið.



 Já, svona sofa þær blessaðar saddar og sælar og er slétt sama þó bóndalufsan sé eitthvað að þvælast þarna um hánótt.

 Sauðburðurinn gengur bara vel, hægt en örugglega og enn eru það einungis sæðisær og gemlingar sem fjölga sér.

 Eitt lamb kom löngu dautt og tvö hafa drepist í fæðingu með ótrúlega slysalegum hætti.

Tvær fullorðnar hafa svo borið einu lambi.

Það þýðir að " einungis" 3 þrílembur eru í umferð og tveir gemlingar eru með tveimur lömbum í augnablikinu.  En allar þessar fullorðnu ganga með tveimur lömbum, enn sem komið er.

Það verður trúlega ekki reynt að venja undan þrílembunum héðanaf, enda blása lömbin út á ógnarhraða í þrílembustíunni og mæðurnar á extra dekurfæði með ómældri bygggjöf.

Já þetta gengur bara vel og þó orðaforðinn sé í góðu lagi hjá mér, skortir mig lýsingarorðin yfir það hvernig vorkoman leikur við mann þessa dagana.emoticon

Flettingar í dag: 2161
Gestir í dag: 142
Flettingar í gær: 2949
Gestir í gær: 288
Samtals flettingar: 433089
Samtals gestir: 39945
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 14:39:00
clockhere