03.05.2010 19:53

Byggsáning á útopnu. - Dótamyndir.

  Það var tekið alveg rosalega á því um helgina.

Öllu akuryrkjudótinu var komið á fullan sving í fádæma blíðu enda akrarnir í einstaklega skemmtilegu vinnsluformi.


Atli Sveinn sér alveg um sáninguna einn,ef séð er um að nóg sé af fræi og áburði við hendina.

 Þar sem þeir voru flestallir plægðir í haust var það tætarinn sem fór fremstur í dótaröðinni.
Þetta er 4 m. Pöttinger sem hefur reynst alveg frábærlega, þrátt fyrir óblíða meðhöndlun gegnum árin.
Fantameðferðin var toppuð þegar einn félaginn tætti með honum afleggjarann hjá sér til að brjóta upp holurnar.  Fyrst hnífarnir í honum þoldu það mun fátt verða þeim að fjörtjóni nema slitið.



 Jonni hafði mætt úr borg óttans til að vera á reiðnámskeiði um helgina. Þar sem hrossapestin var mætt, var talið rétt að blása námskeiðið af, því ekki væri gott að námskeiðast á hrossum sem væru hóstandi og skyrpandi.

 Jonni var því settur á tætarann. Einar sem er ákaflega lunkinn samningamaður gerði við hann starfssamninginn. Hann átti að tæta frá 8 - 24 og fá hálftíma í mat tvisvar á dag. Ekki var gert ráð fyrir launum í samningnum enda verið að vinna lögskipaða frídaga og 1. maí í þokkabót.


 Hér fær hann hálftíma í mat með ferðum inniföldum. Reyndar var honum sleppt um kl 22 á sunnudagskvöldið enda akrana að þrjóta.

 Atli Sveinn sá um sáninguna. Hann yfirgaf búreksturinn á föstudagsmorgni og lauk sáningu í þessari lotu um hádegi í dag (mánudag).  Væntanlega margbrotið hvíldarlöggjöfina með einbeittum brotavilja.



 Og Einar var að valta og hljóp svo í að sjá um að ekki vantaði fræ og áburð hjá sáðmeistarnum.

Ég sjálfur sinnti búi mínu af kostgæfni en var svo í afleysingum á tætara og í áburðar og fræreddingum þegar þurfti.
 Þar sem ég var stressaðastur í hópnum notaði ég símann óspart til að skamma þrælana og skapa allskonar leiðindi eins og mér einum er lagið.

 Það var sáð í tæpa 50 ha. í þessari törninni og nú er búið að flóðrigna í dag .


                        
  Það er langt í að akrarnir líti svona út.- Og þó.  Hér var sáðmeistarinn að uppskera Judithakur. sl. haust


Þetta er langþráð rigning og að hún skyldi  koma akkúrat núna bendir ótvírætt til þess að þetta byggbjástur okkar félaganna sé guði þóknanlegt.

 Nú verða teknir 2-3 dagar í að fínisera akrana sem eftir eru, ná vopnum okkar á ný og ljúka svo við að sá seinnipart vikunnar.

 Þetta er lífið. emoticon
Flettingar í dag: 2072
Gestir í dag: 123
Flettingar í gær: 2949
Gestir í gær: 288
Samtals flettingar: 433000
Samtals gestir: 39926
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 10:28:55
clockhere