02.05.2010 20:28

Þrílembuskot í upphafi sauðburðar.

 Nú er sauðburðurinn hafinn og fer rólega af stað sem betur fer.

 Það eru sæðisærnar og gemlingarnir sem byrja ballið en í beinu framhaldi af sæðingum fengu hrússarnir svo að leika lausum hala í hjörðinni sér til mikillar ánægju.

 Frjósemin í startinu er fullmikil fyrir smekk bændanna, því draumurinn er nú sá að fá tvö lömb úr hverri  fullorðinni ær og eitt úr gemlingi.

 Það væri samt trúlega leiðigjarnt til lengdar ef allir draumar rættust.

 Af  fyrstu 8 ánum eru 4 tvílemdar. Hinar fjórar eru hinsvegar þrílemdar og ljóst að þetta boðar mikla frjósemi þetta vorið. Og ekkert fengieldi frekar en undanfarin ár.


Það er ljóst að þó nokkra ær fá að ganga með 3 lömbum í sumar sem er vont mál þó sumar þeirra fari nokkuð létt með það..

 Sem betur fer var sú níunda með einu lambi og var skellt undir hana tvílembingi undan gemlingi.



 Einu sinni var talað um að fæddist mislitt lamb í Dalsmynni á þriggja ára fresti, spurning hvort nú séu þrjú ár í það næsta.

Golsótt er held ég ljótasti sauðfjárliturinn. Hann er hinsvegar í miklu uppáhaldi hjá minni heittelskuðu svo nú er bara að krossleggja fingurna og vona að Golsi stigist illa í haust.

 Og hér eru gemlingarnir komnir á viðverustað sinn næstu dagana en þeir gætu svo endað úti fljótlega þegar fer að þrengjast í húsunum.
 

 Já nú fer erfiður en skemmtilegur tími í hönd í sveitinni.

Og það vorar með miklum látum.emoticon

Flettingar í dag: 2247
Gestir í dag: 174
Flettingar í gær: 2949
Gestir í gær: 288
Samtals flettingar: 433175
Samtals gestir: 39977
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 19:35:12
clockhere