17.04.2010 07:47

Fröken forseti..


 Ég lenti ungur í allskonar félagsmálavafstri og á tímabili taldi ég mér trú um það væri skylda hvers manns að leggja sitt af mörkum til samfélagsins og ég væri góður í því.

 Síðan hefur gríðarlegt magn af vatni runnið til sjávar og ég er löngu búinn að átta mig á því að laun heimsins eru vanþakklæti og það eru oft einu launin sem félagsmálatröllin bera úr býtum.

 Reyndar uppgötvaði ég það svo í framhaldinu að ég var náttúrulega alls ekki ómissandi, þegar ég eftir fyrri uppgötvunina fór með markvissum hætti og koma mér útúr þessu félagsmálavafstri.

 Það komu þó vissulega góðar stundir þegar manni fannst eitthvað gott hafa áunnist,  sérstaklega á ákveðnu tímaskeiði ævinnar þegar peningarnir voru algjört aukaatriði og aldurinn í Wiskýinu skipti ekki nokkru máli.

 Það voru því blendnar tilfinngar þegar yngri dóttirin sagði mér frá því að hún væri komin í framboð til forseta í MH en þar stefnir hún að námslokum næsta vetur.


                        Halla Sif á Þrym sínum að æfa spænska sporið.

 Þegar ég áttaði mig síðan á því að í þessum 1000 manna skóla, voru 4 mótframbjóðendur á móti sveitastelpunni úr 40 nemenda skólanum vestur á Snæfellsnesi fylltist ég meiri kosningarskrekk en ég hafði nokkurtímann fundið fyrir í félagsmálabröltinu á árum áður.

 Reyndar vissi ég að sveitastelpan var að sjálfsögðu best og klárust í þetta djobb en reynslan hefur fyrir löngu kennt mér það, að þeir sem fara með kosningarréttinn eru ekkert frekar að kjósa besta og klárasta fólkið eða þannig. Út á það gengur lýðræðið.



 Mamman , frænkan og tilvonandi forseti MH. Að sjálfsögðu er gengið í takt í sveitinni.

 Það var semsagt kosið í MH í dag og lungann úr deginum var ég að velta fyrir mér hvernig standa skyldi að áfallahjálpinni þegar að dóttirin myndi hringja og segja mér niðurstöðuna.
 
 Og nú er hún búin að hringja og maður er pínulítið stoltur inni í sér og fullur bjartsýni á þetta gáfaða unga fólk sem kann að greina kjarnann frá hismninu.emoticon  

Flettingar í dag: 2798
Gestir í dag: 550
Flettingar í gær: 588
Gestir í gær: 185
Samtals flettingar: 427863
Samtals gestir: 39464
Tölur uppfærðar: 7.5.2024 20:15:31
clockhere