09.04.2010 07:56

Mjólkurflutningarnir á Nesinu.

 Eins lengi og elstu menn muna hefur mjólkin á norðanverðu Snæfellsnesi verið flutt inn í Búðardal.

 Þar hafa miklir snillingar tekið við henni gegnum tíðina og verið góðir í að framleiða allskonar sérvöru sem hefur virkað vel eða mjög vel í sölunni.

 En allt er breytingum undirorpið, ekki síst í sveitinni og nú er norðanmjólkinni smalað saman með okkar mjólk sem enn erum að berjast við þetta hér sunnanfjalls. Og nú lendir hún á Selfossi til að byrja með.


 Á mánudögum er bætt um betur í flutningsgetunni og mætt með þriggja hásinga aftanívagn.

 Það er orðið talsvert síðan sex hjóla Maninn þjónustaði okkur og eins gott að ekki sé þröngt fyrir dyrum þegar þetta flutningatæki birtist á hlaðinu.

 Það hafa verið algjör álög á okkur,að hér hefur hver öðlingsbílstjórinn tekið við af öðrum allt frá því að Siggi Brynka þjónustaði hér á öndverðri síðustu öld. Það er reyndar svo langt síðan hann var, að ég man trúlega ekki eftir honum nema í gegnum sögusagnir.



 Hann Sveinn Pétursson fellur ákaflega vel inn í þennan hóp öðlinga en vinnutíminn hjá honum lengdist um 1.5 klst. við þessa breytingu , þrátt fyrir að létt væri á svæðinu að sunnanverðu.

 Þeir bæir sem enn eru í mjólkurframleiðslu að norðanverðu eru Arnarstaðir og Hraunháls í Helgafellsveit. Í Grundarfirði eru síðan eftir 4 bæir , Kolgrafir. Eiði, Naust og Nýjabúð.

 Svo er bara að vona að þessi breyting bendi ekki til þess að tekið sé að fjara undan samlaginu í Búðardal, því grannar mínir í Dölunum mega ekki við því að missa það.
Flettingar í dag: 2483
Gestir í dag: 254
Flettingar í gær: 2914
Gestir í gær: 601
Samtals flettingar: 430462
Samtals gestir: 39769
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 17:44:06
clockhere