12.02.2010 23:35

Hestaferðir fyrr og nú.

Það hefur margt breyst síðan í gamla daga þegar maður var að fara í fyrstu hestaferðirnar.

 Þá stakk maður á sig samlokum fyrir daginn, ( nú eða sleppti því) og  veislan í áningarstað kom ekki úr drekkhlaðinni trússkerrunni heldur á gestrisnu sveitaheimili þar sem gistingin beið manns.


          Hólaskógur 2009.   Þetta er lífið og sem betur fer vissi enginn um úrhellið sem beið okkar daginn eftir.

 Þetta var að sjálfsögðu áður en menn fundu upp ferðaþjónustuna og maður lærði fljótt að móðga ekki gestgjafana með því að bjóða borgun fyrir hross eða menn.

 Reyndar fór maður yfirleitt úr gististað með það í kollinum að gestgjöfunum hefði verið gerður stórgreiði með viðkomunni.

 Mér eru minnisstæðastir Ketilstaðir í Dölum og Valbjarnarvellir í Borgarf. þegar þessar minningar koma upp á harða diskinum.

 Í dag eru veisluhöldin óslitin  frá morgunverðinum til kvöldverðar að stoppistöðunum meðtöldum því trússarinn er aldrei langt undan og hugmyndaflugið varðandi brýnustu nauðsynjar  í býsna góðu lagi hjá þeim sem kaupa inn fyrir hestaferðirnar.


 Hér bjóða Hornfirðingar upp á kríuegg í Hrollaugsborgum sumarið 2008.  Hornfirðingar vissu ekki að það væri búið að finna upp ferðaþjónustuna frekar en gestrisnu vinir mínir  fyrrum.

 Já, þetta er tóm sæla og hamingja.


 Maður notar svo oft ótíðarkafla vetrarins til að fara yfir komandi reiðleiðir sumarsins enda ekkert skemmtilegra en það.

 Nema náttúrulega ferðin sjálf.

 Nú er lélegt í ári hvað ótíð varðar, svo það verður að svindla á kerfinu og taka blíðviðriskvöldin í að dreyma um sumarið.

 Nú er verið að stinga út grunninn að túrnum milli sauðburðar og grenjavinnslu og stefnt að því að leita upphafsins í hestaferðunum.

Fer lífið ekki alltaf í hring?

 Enginn kerruflutningur á hestum. Enginn trússbíll nema í áfangastað að kveldi,.

 Það verða nokkrar samlokur í vasann að morgni. Skeifur í töskunni og járningartöngin við beltið.

Og stór hluti rekstrarins verður tamningatrippi eins og í gamla daga.

  Ef eitthvað fer úrskeiðis og dagurinn verður langur verða menn bara svangir.

Og hafa gott af því.emoticon

Svo er spurning hvort ég kemst upp með svona forneskju og afdalamennsku.emoticon





Flettingar í dag: 28
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 863
Gestir í gær: 52
Samtals flettingar: 422061
Samtals gestir: 38470
Tölur uppfærðar: 2.5.2024 01:22:37
clockhere