03.02.2010 22:19

Hrossaræktin og hugarvílið.


 Ég var að velta því fyrir mér í dag, hversu áhyggjulaust lífið var áður en ég ákvað að fara að fikta við hrossarækt á gamals aldri.

 Það eru svona 5 ár síðan. 

 Í ræktunina skyldi notuð miðaldra hryssa sem hafði verið tamin og notuð til reiðar eftir þörfum, en hafði reyndar verið frekar verklítil í nokkur ár eins og altítt er með hross á Íslandi.

Bæði tamin og ótamin.

 Ég lagði nú ekki miklar pælingar í stóðhest handa hryssunni heldur hringdi í vin minn norður á Blönduósi og spurði hvort ég kæmist ekki að með hryssuna undir stóðhestinn hans.


 Funi Parkersson kom út úr því. Hann er á fjórða vetur og gaman að vita hvað verður úr honum.

 Næsti stóðhestur var líka fljótvalinn því ég hafði verið að temja tík fyrir vin minn norður í Skagafirði
og reynslan hefur kennt mér það að ég mun aldrei verða ríkur á hundatamningum.

 Þessvegna hélt ég hryssunni minni undir stóðhestinn  á þeim bæ.



 Taktur Hágangsson kom út úr því. (Sá aftari.)

 Nú fór ég að átta mig á því að hér dugði ekkert kæruleysi og strax uppúr áramótum 2007/8 hófust miklar pælingar og stóðhestagrúsk.

Þar sem hryssan er alhliða kom ekkert til greina nema öflugir fjórgangshestar með mikinn vilja og rými. Þegar þeir fundust þurfti að skoða baklandið. Það háði mér náttúrulega talsvert í þessu að ég hef ekkert vit á hrossum og hef þar að auki ekkert fylgst með hrossarækt í þó nokkra áratugi.



 Dökkvi Eldjárnsson kom  í heiminn í framhaldi af þeim pælingum.

 Til að auka enn á vandamálin  var ákveðið að koma upp stóðhestagirðingu á bænum síðastliðið sumar í samstarfi við hestamiðstöðina.
Þar yrði undaneldisgripurinn að sjálfsögðu að mæta með sínar níur fyrir tölt brokk geðslag og fegurð í reið.



 Það var síðan Sigur frá Hólabaki sem fékk heiðurinn af að vígja girðinguna.

 Og nú eru pælingarnar fyrir sumarið í algleymingi og legið yfir myndböndum, dómum og ættfræði.

Í þetta sinn á  helst að nota fimmgangshest en þó linan í vekurðinni því níurnar eiga helst að sjást í alvöru gangtegundunum. Það er verið að raða upp listanum og viðræður hafnar.

 Hryssan sem ég á þriðjungs hlut í og komið að mér að setja undir hest, er svo alveg eftir, meðeigendum mínum til mikillar hneykslunar.

Ég er nefnilega karlmaður og get bara gert eitt í einu.emoticon 

Og afskaplega glaður yfir því að eiga ekki svona 10 ræktunarhryssur.emoticon

 

Flettingar í dag: 325
Gestir í dag: 62
Flettingar í gær: 255
Gestir í gær: 40
Samtals flettingar: 420325
Samtals gestir: 38300
Tölur uppfærðar: 29.4.2024 10:34:47
clockhere