01.02.2010 23:39

Laugargerðisskóli. Samið um reksturinn.

 Það hefur gengið upp og ofan að berja saman saminginn um rekstur  grunnskólans í Laugargerði.

 Ef það er mælikvarði á gæði samnings að báðir samningsaðilar séu óánægðir, verður þetta trúlega að teljast nokkuð góður samningur sem undirritaður var í Laugargerði í dag.


Eggert Kjartans oddviti Eyja og Miklaholtshrepps og Páll Brynjarsson bæjarstjóri Borgarbyggðar
undirrita samninginn í Laugargerði í dag.

Eyja- og Miklaholtshreppur tekur að sér samkvæmt þessum samningi að annast menntun grunnskólanema úr gamla Kolbeinsstaðarhreppnum í Borgarbyggð með samsvarandi hætti og hingað til hefur tíðkast í samstarfi sveitarfélaganna á vegum byggðarsamlags um Laugargerðisskóla.


 Þá hafa börn úr Kolbeinsstaðarhrepp aðgang að leikskóladeildinni í Laugargerði eins og verið hefur.

 Hvort sveitarfélag fyrir sig sér um akstur nemenda úr sínu sveitarfélagi og Borgarbyggð ber kostnað vegna sérkennslu og annarrar sérþjónustu sinna nemenda.


                                         Samningurinn  handsalaður.

 Samningurinn er aðeins til 5 ára með endurskoðunarákvæði eftir 3 ár sem er ekki gott miðað við um hvaða málaflokk er að ræða. Menntun grunnskólanemenda er fjöregg sem sveitastjórnarmenn ættu ekki að henda milli sín á hlaupum.

 Þessi samningur þýðir verulega aukin útgjöld fyrir Eyja og Miklaholtshrepp og mun eflaust þýða nokkra uppstokkun á rekstri skólans og sveitarfélagsins næstu árin.

 Vegna þessa er ólokið vinnu við rekstaráætlun yfirstandandi skólaárs og verður drifið í að ljúka því.


Bæjarstjóri Borgarbyggðar ásamt fráfarandi fulltrúum í rekstrarnefnd þeim Jónasi á Jörfa. Ásbirni í Haukatungu og minnihlutamanninum honum Finnboga Rögnvalds. Þeirra verður allra sárt saknað á vesturbakkanum. Reikningshaldari skólans , Sigrún á Hlíð t.h.

 Sveitarstjórn Eyja og Miklaholtshrepps mun taka yfir störf rekstrarnefndar skólans til að byrja með.

Þar mun fulltrúi Borgarbyggðar eiga sæti með málfrelsi og tillögurétt og fulltrúar kennara og foreldra sitja fundi með sama hætti og í fræðslunefnd áður.

Segið svo að kreppan komi ekkert við okkur í sveitinni.


 

Flettingar í dag: 325
Gestir í dag: 62
Flettingar í gær: 255
Gestir í gær: 40
Samtals flettingar: 420325
Samtals gestir: 38300
Tölur uppfærðar: 29.4.2024 10:34:47
clockhere