19.01.2010 12:32

Landbúnaðarframleiðslan og tvennskonar styrkjakerfi.

 Það er áhugavert að velta fyrir sér mismuninum á niðurgreiðslunni eða framleiðslustyrkjunum í sauðfjárframleiðslunni annarsvegar og mjólkinni hinsvegar.

 Ekki er síður umhugsunarefni að velta fyrir sér muninum á afurðarsölufyrirtækjum þessarra búgreina.

 Í sauðfjárframleiðslunni er óheft framleiðsla óháð styrkjagreiðslum og bústærðir einstakra bænda þróast eftir aðstöðu þeirra og framleiðslumöguleikum óháð styrkjagreiðslum.

 Þó afkoman án styrkjanna sé skelfilega döpur eiga þeir þó þetta val og það getur reyndar verið ágætlega hagkvæmt að auka framleiðsluna utan við styrkjakerfið við ákveðnar aðstæður.

Ég sé fyrir mér að þróun styrkja í sauðfjárframleiðslunni þróist í styrk á kjötframleiðslu upp að ákveðnu marki.

Þetta verði búsetu eða byggðastyrkur hugsanlega að einhverju leiti bundinn við ákveðin héruð umfram önnur.

 Síðan býr sauðfjárframleiðslan við nokkur afurðarsölufyrirtæki.

Það verður til þess að smá samkeppni er um að standa sig í verðum og afsetningu þó reksturinn sé þungur.

Það er kristaltært í mínum huga að til lengri tíma litið er það mun árangursríkara, enda voru sum  þessara  fyrirtækja snögg að átta sig á þeim möguleikum sem fólust í falli krónunnar og eru í miklum og ánægjulegum útrásarhug sem er að skila sér í hagstæðum sölum á allskonar afurðum og aukaafurðum.

Og minnkandi sala innanlands skiptir ekki máli því útflutningurinn er að skila ásættanlegu verði og það finnast markaðir fyrir þessari auknu útflutningsþörf.

 Í mjólkinni er framleiðslan algjörlega njörfuð við styrkjakerfið og styrkjakerfið við framleiðsluna.

Frumkvöðullinn sem setur upp ísgerð í fjósinu eða framleiðir þar osta verður að gera það í gegnum KERFIÐ með mjólk sem er framleiðsluréttur fyrir.

 Þetta kerfi gengur út á það að mjólkurframleiðslan á skerinu sé nokkurn veginn nákvæmlega það sem hægt er með góðu móti að afsetja hér innanlands.

  Allar breytingar á framleiðslu milli framleiðenda fara í gegnum kaup og sölu á styrkjunum eða framleiðsluréttinum og er eftirspurnin alltaf verulega meiri en framboðið.

Það eru gríðarlegar upphæðir sem hafa horfið útúr landbúnaðinum gegnum þetta kerfi.

Þetta þýðir það á mannamáli að seljandi slíks réttar fer oft útúr búgreininni með  fyrirframgreiddan 10 ára framleiðslustyrk.

Kaupandi réttarins er hinsvegar næstu tíu árin a.m.k. að berjast við  við að framleiða mjólk þar sem bankinn hirðir  verulega hluta af tekjum hans af framleiðslunni upp í lánið fyrir kvótakaupunum.

Þeir sem tóku lán á allra síðustu árum til að fjárfesta í kvóta munu reyndar taka drjúgum lengri tíma í að gera upp við bankann sinn og skiptir þá litlu hvort lánið hafi verið innlent eða erlent.

 Rétt eins og í sauðfjárframleiðslunni er ljóst að margir mjólkurframleiðendur geta með hagkvæmum hætti aukið framleiðsluna þó slík umframframleiðsla yrði styrkjalaus.

 Framleiðsla umfram innanlandsneyslu yrði að flytjast úr landi og það mætti vel hugsa sér lagasetningu sem tryggði að slíkur útflutningur yrði jafnað niður á framleiðendur .

 Nokkur hluti félaga minna í framleiðslunni myndu trúlega láta dálítið illa meðan slík breyting færi í gegn en þeir myndu jafna sig og huggast áður en lyki.

En framleiðslurétturinn myndi komast á vitrænt verðplan.

Ég ætla svo ekkert að ræða í bili hvernig MS stendur sig í útrásinni.emoticon
Flettingar í dag: 55
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 425
Gestir í gær: 57
Samtals flettingar: 421225
Samtals gestir: 38421
Tölur uppfærðar: 1.5.2024 02:09:54
clockhere