04.11.2009 23:58

Hreinsanir í Hafursfellinu.

Þegar að sést til kinda í Hafursfellinu eftir að leitum er lokið er 100 % öruggt  að þetta eru vandræðaskepnur sem selja sig dýrt.

 Þær halda sig upp í fjallinu í dölunum/skálunum eða uppundir klettum og allar virðast alltaf klárar á því að komist þær í kletta séu þær hólpnar. Þó sumar séu gamlir kunningjar til margra ára hafa þó margar þeirra gegnum tíðina hvorki sést þar fyrr eða síðar, heldur virðast þær stoppa þarna eftir að hafa flúið úr leitum annarsstaðar.

 Stundum bíð ég eftir að snjórinn komi þeim niður á láglendið en oftast legg ég til atlögu áður.

 Þetta eru svona eins leiðangurs kindur því þær halda sig alltaf einar með lömbunum og það er oftast sér ferð fyrir hverja, nú eða  tvær ferðir á sumar.


 Svona lítur Þverdalurinn út þegar komið er upp í hann en gilið sem er fremst í honum er mjög vinsælt athvarf hjá þeim eftirlegukindum sem þarna stoppa þegar á að fara að bögga þær eitthvað.

 Eftir mjaltir í gær var lagt í Þverdalinn en þar hafði tvílemba haldið sig í norðanverðum dalnum en Austurbakkarolla að sunnanverðu með öðru lambinu en hitt hafði náðst í ferð 1.

 Þegar upp kom varð ljóst að sú austurlenska hafði yfirgefið svæðið en tvílemban var í efstu grösum  að norðanverðu.

 Í þessum leiðöngrum er stólað á Vask og þegar tekist hafði að lauma honum uppfyrir tvílembuna hófst mikil barátta fyrir því að halda henni frá gilinu.



 Það dugði henni lítið þó að hún slyppi neðst í það og að hætti vestfirskra smalameistara dreif ég hana niður á eftir lömbunum sem höfðu vegna reynsluleysis ekki séð neinn tilgang í því að hengja sig utaní einhverjar klettasnasir.

 Þetta var svo tvílemban mín og eru nú þær fullorðnu alheimtar ( þar til annað sannast).

 Meðan á þessu stóð var yngri bóndinn sendur í útkikk að gá að Austurbakkarollunni.
 Hún reyndist vera komin  sunnan í Fellið og að sjálfsögðu í efstu grösum  þar.


 Hér er hún að spyrna af stað beint upp, en Vaskur er einhversstaðar í urðinni hér til vinstri á miklum skriðþunga. Svona hlíðar eru orðnar okkur Vaski nokkuð erfiðar og verða sífellt brattari og hærri með hverju árinu.



 Hér er þetta samt komið undir kontrol.

 En sú af Austurbakkanum gaf sig ekki fyrr en í fulla hnefana og sem betur fer fyrir ofurviðkvæma blogglesendur tæmdist rafhlaðan í myndavélinni núna.

 Mæðgurnar komust nú samt ótjónaðar heim.

Og Albert lofaði mér því að gimbrarnar yrðu ekki settar á.

 Hinir vinir mínir á Austurbakkanum mættu alveg taka hann sér til fyrirmyndar.emoticon 

  Fleiri myndir hér.  Eftirleitir

 
Flettingar í dag: 12
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 740
Gestir í gær: 164
Samtals flettingar: 424489
Samtals gestir: 38736
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 01:17:49
clockhere