03.11.2009 00:42

Fjárhundakeppnin,órólega deildin í VG og hann Mýrdals Móri.

  Sunnudagurinn fór að mestu í árlega smalahundakeppni okkar Snæfellinga.

 Að þessu sinni var hún haldin að Mýrdal. Það var ekki nóg með að Gísli sleppti okkur inn á sparitúnið sitt, heldur sá hann um að koma upp brautinni  og strákarnir hans sáu um að keyra í okkur rollurna og sleppa þeim.


 Staðarlegt heim að líta í Mýrdal og Gjáin í baksýn skemmir ekki útsýnið. En bóndinn orðinn dálítið þreytulegur

 Og svo var veisla á eftir.

 Toppþjónusta og héðan af verður keppnin  haldin þarna, punktur.

 Fjárhundakeppnirnar eru alltaf mikið lotterí, því ekki er nóg með að dagarnir séu misjafnir hjá smölum og hundum heldur eru rollurnar jafn misjafnar og þær eru margar.
 Þarna voru þær nú upp til hópa fínar og það var óvenjulegt að þær sóttu ekkert í einhverja átt útúr brautinni.

 Þetta varð nú samt sama hefðbunda baslið og í sumum rennslunum komu erfiðar kindur.

 Þær höguðu sér líkt og órólega deildin í vinstri grænum þegar taka þarf á virkilegum vandamálum.
 Stoppuðu, stóðu framan í hundunum, stöppuðu niður fótum og vissu ekkert hvað þær áttu að gera eða hvert ætti að fara. En urðu til mikilla tafa og vandræða í rennslunum. Oftar en ekki urðu þær til þess að ekki náðist að ljúka verkinu og allt endaði í upplausn.
 Ákveðnustu hundarnir réðu nú samt við þetta og eftir að hafa tekið rollurnar til bæna létu þær sér oftast segjast og voru til friðs.
Jóhanna og Steingrímur hefðu kannski eitthvað getað lært þarna.


 Fulltrúi Húnvetninga nánar tiltekið Vatnsnesinga, Halldór á Súluvöllum mætti með tvo í unghundakeppnina / B flokkinn og sópaði til sín verðlaunum. Hér eru þeir Spori að sýna okkur hvernig á að gera þetta. Og þarna er réttin sem svo illa gekk að koma fénu í. Þar sést ógreinilega í eitthvað innst í horninu. 

 Þarna var síðan öflugasta unghundakeppni sem ég hef tekið þátt í, 7 hundar, allir töluvert mikið tamdir og góðir.  Sumir bara virkilega góðir og mjög mikið tamdir.

 Það gekk samt öllum illa að koma hópnum í réttina í lokin. Þegar að Mýrdalsbóndanum tókst það loksins sáum við Valli, sem erum góðir í því að sjá það sem við viljum sjá, hvað var í gangi.

 Mýrdals Móri sem átti nú ekki að vera í umferð lengur, sat inni í réttinni og lét öllum illum látum. Þegar að Gísli kom með sinn hóp brá hann sér hinsvegar útfyrir og hjálpaði við að reka inn.
 Þetta dugði þó Gísla ekki alltaf, sem segir nokkuð um sumar rollurnar hans.

Mýrdalsmóri var greinilega enn inni í gamla hrepparígnum því hann hjálpaði Halldóri á Súluvöllum líka.

 En Halldór er eins og menn vita fæddur og uppalinn á Austurbakkanum og þessvegna er hann nú eins og hann er.


Gísli og Halldór með verðlaunin fyrir B fl.   Gísli 1. sæti   en Halldór annað og þriðja sæti. Aðstoðarmaður þeirra hann Mýrdals Móri er líka á myndinni en það eru víst bara við Valli sem sjáum hann.

 A. flokksmennirnir mættu með fjóra þrælgóða hunda en þetta var nú samt óttalegt basl á þeim.
Ég var farinn að sjá eftir að hafa gefið Vaski æfilangt keppnisfrí, því við hefðum haft gaman af því að sýna þeim hvernig ætti að gera þetta. (Segi nú bara svona).


                                                                      Valli, Hilmar og Gísli.

 Hilmar og Dot náðu fyrsta sætinu . Gísli og Spóla  í öðru og Valli og Skotta í þriðja.

  Aðalslagurinn var í unghundakeppninni  en þar hrepptu Gísli og Kata fyrsta sætið , Svanur og Dáð annað og Halldór og Spori það þriðja.

 Nánar um stigatölur og annað hér. Smalahundafélag Snæfellsnes og Hnappadals
 
Flettingar í dag: 395
Gestir í dag: 109
Flettingar í gær: 740
Gestir í gær: 164
Samtals flettingar: 424872
Samtals gestir: 38838
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 10:29:03
clockhere