01.11.2009 00:25

Villifé í Hafursfellið !

 Þetta var alveg firnagóður dagur í dag.

Fyrir það fyrsta gjörtæmdum við haughúsið svo nú geta Dalsmynnisbændur verið áhyggjulausir eitthvað fram í apríl hvað skítmokstur varða.

 Í öðru lagi virðist blessuð ríkisstjórnin komin fyrir vind í efnahagsmálunum og hefur því ákveðið að snúa sér að fjárleitum vestur á fjörðum en þar gengur eitthvað brösuglega að ná nokkrum rollum af erfiðu leitarsvæði.

   Trúlega er komin einhver uppgjöf í ráðherrana að ná því fé sem komið er til Tortolaeyja og vilja því huga að því sem hendi er næst.

 Ef ég skil hlutina rétt stafar verkefnaskortur þeirra af því að nú er búið að slá endalegri skjaldborg um bankana og gulltryggja að sparifjáreigendur tapi engu í krísunni. Jafnframt er búið að tryggja það að skuldarar þessa lands muni borga það sem þeir mögulega geta meðan á jarðvist þeirra stendur, af lánunum sem ýmist eru búin að tvöfaldast eða eru á öruggri leið með að gera það í verðbólgunni. Nema kúlu og barnalán afskrifast eins og mögulegt er.

 Í þriðja lagi las ég það á netinu að ágætur þingmaður/kona okkar norðvestlendinga er þeirrar skoðunar að séu smalar í hættu við smölun fjár vegna erfiðra aðstæðna, sé skynsamlegast að láta féð bara eiga sig.
 
 Þetta fannst mér frábært og reyndar það skynsamlegasta sem ég hef nokkurtímann heyrt eða lesið eftir krataþingmann.

Hef ég þó fylgst með pólitík af miklum áhuga síðustu 50 árin.

 Það þarf að binda þessa snilldarskoðun í lög sem fyrst og óðara myndu spretta upp öflugir villistofnar víðsvegar um landið.

 Ég sem hef marga fjöruna sopið í leitum og eftirleitum og eftireftirleitum hef bara aldrei hugleitt þennan möguleika, enda  upplifað það meðal annars að sjá fé hrapa til dauðs við erfiðar aðstæður oftar en ég vil muna. 

Í dag heitir þetta víst að reka fé fram af björgum.

 Nú þegar ég hef séð ljósið, er þungu fargi af mér létt, sérstaklega vegna þess að ég veit af kindum á þremur stöðum í Hafursfellinu. Þessar kindur eru án nokkurs vafa afbragðs upphafsstofn fyrir
 " villifé " ,  erfiðar viðureignar, ágætlega klettsæknar og styggðin er í góðu lagi.

 Vinir mínir á austurbakkanum eru svo að sérhæfa sig í allskonar ræktunarlínum og sumar þeirra henta síðan ágætlega í þetta.



  Það er síðan morgunljóst að Hafursfellið hentar mun betur fyrir " villifé" en þessi útnári þarna í Vesturbyggð. Af samtölum við heimamenn má ráða að aðstæðurnar séu fénu svo erfiðar þarna að það nái ekki nema 2- 4 vetra aldri og stofninn hafi aldrei náð nema nokkrum tugum, sem stemmir illa við lýsinga annarra heimamanna um skjólgott og grasgefið fjallendi.

Þessar voru seint á ferðinni úr Hafursfellinu og ekki nógu erfiðar til að duga  í villifjárstofn.

 Hér í kringum Hafursfellið eru lunknir fjármenn sem vita nokkuð um hverjar þarfir sauðkindarinnar eru, þó þeir komist að vísu bara með tærnar þar sem margfróðir bloggarar um sauðfjárhald hafa hælana. Hvað þá heldur þingmenn.

 Þar sem við viljum þó sjá 7-10 ára aldur á alvöru villifé þyrfti að ná af þeim ullinni a.m.k. annaðhvert ár.

 Sú aðgerð myndi geta skapað verulegan ferðamannabísniss fyrir ævintýrafólk því auðveldlega væri hægt að taka nokkrar vikur í þetta yfir sumarið með tilheyrandi sigæfingum fyrir björgunarsveitir.

 Þegar færi að sverfa að í fjallinu að vetrinum myndi féð laumast niður á láglendið þar sem aldrei tekur fyrir beit en að sjálfsögðu mun þessi villifjárumræða verða til þess að gerðar verði lagabreytingar sem létta smalaskyldum af sveitarfélögum. 

 Jafnframt yrði veittur afsláttur á dýraverndunarlögum sem heimilaði afdráttarlaust að við svona aðstæður mætti setja fé á guð og gaddinn eins og þar stendur.

 Já, með því að ná ullinni reglulega af fénu og laumast til að fóðra það á harðindaköflum er ljóst  að því myndi fjölga hratt og og þá þyrfti að grisja stofninn. 

 Þar höfum við fyrirmyndina úr hreindýraveiðunum og þar sem þetta er villifé þýðir það öruggleg allt aðra meðhöndlun við meðferð og nýtingu kjötsins.

Ekkert ESB kjaftæði þar.

 Og skógræktarbændurnir við Hafursfellið verða kátir þegar þeir lesa þetta.emoticon 

 

 
Flettingar í dag: 12
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 740
Gestir í gær: 164
Samtals flettingar: 424489
Samtals gestir: 38736
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 01:17:49
clockhere