20.09.2009 07:58

Rauðamelsheiðin smöluð.


  Það var lagt af stað kl. 7 frá Hestamiðstöðinni en hrossin eru keyrð inní Litla Langadal á Skógarströnd.
 Þetta er klukkutíma akstur og síðan tekur um einn og hálfan tíma að ríða suður á Flatir þaðan sem leitum er skipt.

 Í gegnum tíðina hafa margvíslegar útgáfur verið á leitartilhögun á Rauðamelsfjallinu. Lengstum var farið ríðandi sunnanað og menn leituðu síðan gangandi frá Flötunum.
 Í nokkur ár voru leitirnar hestlausar að mestu. Menn ýmist keyrðir inn á Litla Langadalinn eða þeir þrömmuðu inn allt fjall.

 Nú eru semsagt allir ríðandi og hafa verið það þessi fáu ár sem ég hef tekið þátt í leitum þarna.


 Allt að verða klárt í Litla Langadal en Einar skutlaði okkur inneftir á Trailernum þó hann kæmist ekki með í leitina í þetta sinn.

 
Aldrei þessu vant vorum við á góðum tíma á Flötunum og Langidalurinn greiðfær í þetta sinn en í fyrra var hann var eins og hafsjór yfir að líta eftir endalausar stórrigningar.

 Hér sést hluti leitarmanna áður en leitum er skipt. Leitarstjórinn sjálfur fór ásamt fleirum ríðandi frá Heydalsveginum til að smala Sátuna austanverða.

 
Ég var síðan efstur í vesturfjallinu en Dóri í Sátunni, annarsvegar vegna frábærra smalahæfileika okkar en ekki síður fyrir að við vorum þeir einu sem vorum með hunda.

 Það er oft harðsótt að ná rollunum inní leitina og halda þeim þar og góðir hundar algjör forsenda fyrir því að það gangi almennilega.
 Ég þurfti að fara óvanalega hátt í innfjallinu og lenti í vandræðum með að koma hrossunum yfir Hestgilið. Reyndar höfðum við Hyrjar farið þarna í fyrra með miklum látum  en þegar ég kom að staðnum núna leist mér ekki á að koma tveim hrossum yfir þar . Það var því farið enn ofar og yfir fórum við en þar var nú teflt á það tæpasta.



 Bára og Hyrjar fengu síðan að finna fyrir því í leitinni, því ekki er bara að leitarsvæðið breikki verulega eftir því sem sunnar kemur heldur er sú tilhneiging afar rík  hjá leitarmönnum að þétta sig austurávið og enda ég yfirleitt með nokkurra km. breitt svæði aleinn og yfirgefinn. Ekki nóg með það heldur er þetta alveg dj. erfitt svæði með ófæra urðarfláka,klettaborgir og hraun.

 Eftir að hafa farið upp um allt og síðan kominn aftur niður og austurfyrir Ölkeldugilið, leist mér ekki á blikuna því engir leitarmenn sáust og heldur farið að bæta í rigninguna. 
 Ég náði samt í leitarstjórann í símann og þrátt fyrir að hafa allan mannskapinn einhversstaðar í nágrenninu fullyrti hann að allt væri komið í klessu en lofaði samt að hækka sig aðeins og koma og taka við þessu hjá mér svo ég kæmist aftur upp í hraunið.


Það fylgir leitarstjórninni mikil ábyrgð og þegar sést fyrir endann á farsælli leit getur  fjallkóngurinn, Jón í Kolviðarnesi, slakað aðeins á

 Munkurinn sem átti að vera næstur mér í leitinni hafði misst undan klárnum og var sendur niður  því þarna er ekki fýsilegt að vera á ójárnuðu.

  Þetta gekk samt allt upp og við tók síðan nokkur bið við Gluggaborgina eftir að safnið þokaðist vestur hlíðina.


  Ég fann skjólgóðan stað fyrir hrossin sem enn voru með allt undir sér þó mikið hefði gengið á og búið að leggja þau í allskonar ófærur sem ekki voru hestum bjóðandi.
 Hyrjar missti svo skeifu fljótlega eftir þetta.


 Snilld er eitthvað íhugul á svipinn enda búin að hafa verulega fyrir hlutunum og ekki allt búið. Ég legg mikið uppúr því að hafa eitthvað orkuríkt en auðmeltanlegt til að hressa uppá hundana í þessari þrælavinnu sem ég býð þeim upp á.
 Bróðurparturinn af samlokunum lentu því hjá henni eftir því sem leið á daginn.
 Hún var nú samt búin að fá meira en nóg af vinnunni áður en lauk.

 Þetta eru held ég fyrstu leitirnar mínar í fyrri leit á Rauðmelsfjalli sem Vaskur er ekki með í för.

Það gerðist þó ekki nema þrisvar að ég óskaði þess heitt og innilega að hann væri nærstaddur en þessi leit myndi ganga of nærri honum, gömlum og stirðum.


 Þá var ég samt ekki undir regnboganum eins og hér enda varð mér ekki að ósk minni.


 Fastur liður í leitarlok er veislan hjá henni Áslaugu á Þverá og hér er Ásgeir greinilega að segja einhverja trúverðuga veiðisögu.

 En allir komust til byggða og trúlega er óhætt að treysta því að hæfilegur fjöldi fjár hafi orðið eftir svo menn hafi eitthvað til að eltast við í seinni leitinni.

 Nú gekk leitin óvanalega hratt fyrir sig og vorum við um tveim tímum fljótari en vanalega.

 Enginn velktist í vafa um að það væri örugglega vegna þess að Einar og Auðun voru báðir fjarstaddir sem hefur ekki gerst svo lengi sem yngstu menn muna.


 Þó maður sé ákveðinn í því að láta nú aðra um þetta hörkupuð sem svona leit er, þá er samt alltaf eitthvað sem togar mann í þetta eitt ár enn.

Þetta er trúlega einhver bilun.emoticon 

Fyrir áhugafólkið er síðan textað myndaalbúm.


  
  


 
Flettingar í dag: 2174
Gestir í dag: 242
Flettingar í gær: 2914
Gestir í gær: 601
Samtals flettingar: 430153
Samtals gestir: 39757
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 15:13:13
clockhere