17.09.2009 22:55

Rigningar,smölun gæsaveiðar og skítmokstur.

 Nú er jarðvatnsstaðan orðin ágætlega ásættanleg og gott betur eftir að hafa verið komin í sögulegt lágmark í þurrkum sumarsins.

Restin af Hafursfellinu var smöluð í dag, milli lægða, en illa hefur viðrað fyrir slíka háttsemi undanfarið..

Nú voru komnar aurbleytur í fjallinu, þó maður hafi nú séð .það svartara. Við Hyrjar erum orðnir góðir í aurbleytunum og þegar klárinn sekkur í og stoppar þá fer ég af baki og bíð meðan hann rífur sig upp.  Fyrst var þetta þannig að hann reif sig oftast upp en ætlaðist öðruhvoru til að létt væri á sér.

 Svo varð hann sífellt kröfuharðari eftir því sem leið á leitina og ég hafði fullan skilning á því.

Við lentum í óvanalegu miklu andstreymi í dag og þó aðeins yrði eftir af lausafénu, varð safnið það stærsta sem ég hef sótt á þetta leitarsvæði og trúlega um tvöhundruð  " aðkomukindur " í hópnum.

 Þetta haustið hef ég sem betur fer, ekki orðið var við ræktunarlínu vina minna á austurbakkanum
( sjá blogg 5 -10 - 2008) með steikta heilabúið og geitaullina. Nóg er samt.

 Nú er að lifna yfir eftirspurn í gæsaveiðina enda er nóg til af gæs á svæðinu.



 Þessi mynd er til að kveikja aðeins í veiðimönnunum.


  Og þessi líka.

 Nú fara akrarnir sem enn eru óþresktir að verða klárir í þreskingu og búið að panta þurrk eftir helgina. Þá byrjar gæsaharkið fyrir alvöru.

 Það var síðan drifið í að keyra hálmskítinn út úr stærri smákálfastíunni og undan rollunum, og notalegt að skella hálmrúllunni inn, eftir að hafa upplifað hálmskort á lokasprettinum s.l. vor.
 
 Nú er svo aðalleitirnar og Þverárréttin framundan um helgina en þá verða Svínafellið og Rauðamelsheiðin smöluð. Þar er að vísu nær eingöngu um utansveitarfé að ræða enda er réttarhaldið svo til eingöngu fyrir vini okkar á Austurbakkanum.

 Guð blessi þá.emoticon

 Og Ísland náttúrulega.emoticon
Flettingar í dag: 2641
Gestir í dag: 281
Flettingar í gær: 2914
Gestir í gær: 601
Samtals flettingar: 430620
Samtals gestir: 39796
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 23:34:43
clockhere