13.09.2009 21:50

Fyrsta smölun- og varnarlínan í klessu.


 Það fór hrollur um mig þegar ég sá veðurspána hjá Ásdísi, fyrir daginn í dag.

 Aldrei þessu vant reyndist hún ekki sannspá en norsararnir klikkuðu ekki nærri eins mikið og það varð úr þegar líða tók á morguninn að ákveðið var að smala Selsafréttinn.

  Það er vestasta leitarsvæðið í Eyjarhreppnum og afmarkast af Sauðfjárvarnarlína að vestan og Hafursfellsfjallgarðinum að austan.

  Hlíðin langleiðina innmeð Hafursfellinu hefur síðan verið girt af fyrir skógrækt svo aðalleitin er í innsta hluta Selslandsins. 

 Eftir að sauðfjárbúskapur lagðist af í Hrútsholti hef ég séð um leitirnar þarna. Ég vinn hinsvegar markvisst að því að útrýma því fé sem gengur þarna frá mér og þegar það hefur tekist mega snillingarnir sem fara í hina áttina, og setja allt á sem kemur af þessu svæði sækja féð sitt sjálfir.

  Við smölum þetta á hestum sem hefur ekki verið gert hvorki fyrr né síðar enda er þetta ekki hestvænt land.

Hér erum við Þrymur í um 700 m. hæð og það eru engir skeiðvellir í nágrenninu.

  Þetta væri ekki hægt nema vegna þess að hundarnir sjá um rollurnar.


  Hér er Snilld búin að fara uppfyrir/framfyrir hópinn og setur hann niðurmeð gilinu. Allt uppá 10,5.



 Við vorum þarna uppi á brúninni og  nú erum við bara í góðum málum enn sem komið er.

.

 Hér eru Guðný og Hyrjar að stinga sér ofaní eitt gilið en það er eins gott að vita hvar er hestfært yfir þau.

 Rollurnar á þessu svæði eru úr öllum áttum og eiga það flestar sameiginlegt að vera kolvitlausar.

Svo er Vaski fyrir að þakka að þó þær séu eins og landafjandar í allar áttir, hlýða þær hundum ágætlega og þó Vaskur væri fjarstaddur kom það ekki að sök ., Snilld sem var í sinni fyrstu alvöruleit stóð sig prýðilega og þó hún eigi enn eftir að vinna sig útúr andlega  áfallinu þegar hún lenti undir kvíguhjörðinni í sumar reyndi lítið á hörkuna í henni í þetta sinn.

 Við tökum þetta fé á bíl þarna innfrá en þegar kom niður að varnargirðingunni við Hlíðarhornið kom babb í bátinn.

 Fyrsti hópurinn sem kom að girðingunni labbaði sig bara yfir og var þar með kominn yfir á heilagt land sem óverðugar kindur mega alls ekki stíga fæti á.

 Sem betur fer var Vaskur  í leitinni og Atli sem var að vísu á tveim jafnfljótum brást hratt við.



 Þeir náðu að komast fyrir hópinn og hér er Snilld síðan komin til aðstoðar og þessir dauðaseku línubrjótar færðir af villu síns vegar.



 Hér eru rollurnar orðnir línubrjótar í annað sinn. Snilld  sem var nú búin að taka úr sér mesta kraftinn þegar þarna var komið sögu,  er enn á heilögu jörðinni og á milli hennar og hópsins er sjálf varnargirðingin og fer ósköp lítið fyrir henni.

 Þessi umkomulausi kafli hennar er nánast niðurí sveit og verulegur umgangur sauðfjár beggja vegna.

 Það er víst ein af afleiðingum kreppunnar að  í ár eru ekki settir peningar í að girða upp ónýta kafla í Sauðfjárvarnargirðingum.


 Næst á myndinni eru lambakóngarnir í Dalsmynni með móðurinni. Ekkert þeirra mun eiga afturkvæmt á þessar slóðir en svona er lífið.

  Hér er svo verið að lesta flutningatækið en fara þurfti tvær ferðir í þetta sinn.
Flutningatækið er á heilögu jörðinni vestan girðingar en féð óæðra megin.

Eftir á að hyggja voru það veruleg mistök að láta ekki allt safnið gossa vesturfyrir girðingu en það er alltaf gott að vera vitur eftirá.



 Hyrjar, Þrymur og Bára komin niður úr klungrinu en það eru bara alvöruhross sem virka þarna.

 Þessar lambær eru í góðum málum á " ósýkta " svæðinu sínu,  og  hafi þær einhverntímann rambað yfir á " sýkta"  jörð munu þær örugglega ekki trúa neinum fyrir því.


 Það væri hinsvegar athugandi hjá snillingunum í MAST sem bera ábyrgð á varnarlínunum, að skera niður hjá sér um eitt til tvö stöðugildi og setja peninginn í girðingarviðhaldið.emoticon


Flettingar í dag: 1938
Gestir í dag: 212
Flettingar í gær: 2914
Gestir í gær: 601
Samtals flettingar: 429917
Samtals gestir: 39727
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 09:43:31
clockhere