10.08.2009 23:00

Kjalvegur og Beinahóll


  Við keyrðum uppúr rigningunni þegar við vorum að nálgast Flúðir og fengum þurrt eftir það allan fimmtudaginn.

 Við Gullfoss fórum við framhjá stórum hóp hestamanna sem voru greinilega að leggja á Kjöl og myndu hossast hann með allt öðrum og skemmtilegri hætti en við.

 Um Kjalveg er það að segja að hann er fínn í báða enda en misslæmur þar á milli. Reyndar höfðu góðu endarnir lengst verulega frá því ég fór hann síðast, en hitt var jafnslæmt.

 Svona þvottabretti er hægt að keyra með tvennum hætti. Annaðhvort að sigla á fullri ferð og fleyta sér yfir eða dóla þetta, sem við gerðum. Þeir voru hinsvegar nokkrir sem tóku þetta með hinni aðferðinni og ég vorkenndi fellihýsinu sem dansaði aftan í einum slíkum.

 Þegar kom innundir Hvítárvatn mættum við tveim vegheflum á á suðurleið og var vegurinn því ekki jafnvondur það sem eftir lifði norðuraf.

 Ekki var tekinn krókurinn að gamla skálanum enda ekki nema örfá ár síðan ég gisti þar tvær nætur í hestaferð.

 
  Öll skilti á Kjalvegi voru orðin máð af veðrun á þeirri hlið sem sneri í suður, hin var mun skárri.

 Þegar komið var að þessu skilti sem vísaði á Beinahól var ekið útaf veginum og inná slóðann að hólnum.
 Reyndar mislásum við á skiltið því kílómetrarnir tveir reyndust vera  sjö þegar til kom.
 Það var ævagömul ákvörðun hjá mér að koma einhverntímann við á þessum sögufræga stað og sjá með eigin augum staðhættina þar sem Reynistaðabræður urðu úti í nóv.1780 ásamt fylgdarmönnum og fénaði.

 Þetta ætlaði þó ekki að ganga þrautalaust fyrir sig því eftir að hafa ekið greiðfæran mel að Kjalhrauni voru gönguskórnir teknir fram, því nú hlyti að vera stutt á hólinn enda búin að aka tæpa 2 km frá vegi.

 Komið að Kjalhrauni, Kjalfell nær Hrútfell (Regnbogajökull) fjær.

 Eftir um tveggja km. þramm var okkur hætt að lítast á blikuna og vaknaðar efasemdir um að þessi slóði lægi að rétta staðnum.
 Þegar við hittum svo bílandi ferðalanga sem fræddu okkur um það rétta með vegalengdina, var hinsvegar ekki aftur snúið.

  Næsta blogg verður síðan ítarleg upprifjun á skráðum heimildum um helför þeirra Reynistaðamanna í vetrarbyrjun 1780..

Flettingar í dag: 556
Gestir í dag: 286
Flettingar í gær: 588
Gestir í gær: 185
Samtals flettingar: 425621
Samtals gestir: 39200
Tölur uppfærðar: 7.5.2024 02:37:14
clockhere