09.08.2009 22:51

Smávegis sumarfrí!

 Eftir að hafa legið yfir langtímaspánni var ákveðið að eyða þriðju og miðvikudegi sunnanlands og fara síðan norður Kjöl á fimmtudaginn.

 Uxahryggirnir voru dólaðir  austuryfir og vegurinn upp Lundareykjardalinn var ágætis æfing fyrir Kjalveginn.


 Sunnarlega á Uxahryggjaleiðinni sást skemmtileg útfærsla á Lúpínunni áður en hún leggst í víking.

 Það var síðan trimmað um Þingvöll en óratími er síðan ég hef heiðrað þann stað með návist minni.
Þarna  rigndi lítilsháttar og gekk síðan á með smáskúrum frameftir degi.
 Eftir annað trimm um Sólheima var farið í sveitina og lent í kaffi hjá Ástu og Villa á Hlemmiskeiði.

 Á Hlemmiskeið ólst minn betri helmingur upp allt þar til hún þurfti að leit náms til höfuðborgarinnar og víðar.

Þarna sjá verktakar um stærsta hluta heyskaparins og var fyrri sláttur hespaður af á 28 tímum og heyjað í útistæðu.


 Þarna var byrjað  á að fella niður mykjuna í fyrrahaust og í vor. Síðan var mykja felld niður strax eftir fyrri slátt og kom það virkilega vel út, og niðurfellingin yfirhöfuð. Var mjög greinilegt á túnunum hvar ekki var mykja, í hornum og þess háttar.
 Það er róbót í fjósinu og þennan dag var greinilegt að róbótarnir eiga sína slæmu daga rétt eins og við.
 Eftir ánægjulegt stopp þarna, var dólað enn lengra niður á flatneskjuna og tók nú að líða á daginn.

 Ég forðast nú alltaf tjaldstæðin eins og heitan eld, en leita að heppilegu stæði við læk eða á og sem lengst frá heimsins glaumi, í svona ferðalögum.

 Þarna var hinsvegar lítið framboð af slíku, það er að segja heppilegum stæðum , og endaði þessi dagur því á tjaldstæðinu við Þjórsárver eða Flóaskóla.

 Þrátt fyrir að þarna væri klassa tjaldstæði voru við einu gestirnir.

 Eftir að húsvörðurinn hafði rukkað okkur fyrir gistinguna og uppfrætt okkur mjög ýtarlega um stöðu og framtíð þessa greinilega ágæta grunnskóla var Vaskur viðraður eftir kvöldmatinn.

 Það höfðu semsé náðst samningar um að hann fengi sitt sumarfrí líka, okkur félögunum til mikillar ánægju.

 Þessi mynd er nú að vísu frá tjaldstæðinu í Húnaveri á fimmtudagskvöldið og sýnir  m.a.veðrið sem fylgdi okkur mestalla ferðina.

 Þar sem ég hef alltaf átt óskoðaðan stóran hluta suðurlandsins sem liggur sunnan þjóðvegar 1 var miðvikudagurinn tekinn í að dóla alla hringvegi sem fundust óskoðaðir á leiðinni austur  að Vatnskarðshólum.
 Ég þorði ekki að koma við hjá Hilmari vini mínum í Móskógum því ég hef í vetur og vor, bent þeim sem eru að hringja í mig og leita að hundum,  helst tömdum, að hringja í hann. Ef þeir hafa verið  mjög aðgangsharðir gæti hann kannski verið orðinn hundlaus og ég í slæmum málum sem aldrei fyrr.
 Þegar austur undir Eyjafjöllin kom fór heldur betur að bæta í rigninguna og var hún lárétt í þokkabót.
 Hafði ég á tímabili áhyggjur af pallhúsinu því þó það væri kannski ekki mikils virði var félagi Vaskur þar innanborðs.

 Þetta slapp þó allt til og eftir að hafa spjallað við Vatnskarðshólabændur langt fram á kvöld voru sængurnar sóttar útí bíl því rigningin var enn á lárétta fluginu.

 Og Kjalvegurinn beið okkar hinn þolinmóðasti, með verkefni sem ég hef átt óleyst í nokkra áratugi.
 
Flettingar í dag: 576
Gestir í dag: 182
Flettingar í gær: 740
Gestir í gær: 164
Samtals flettingar: 425053
Samtals gestir: 38911
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 23:06:05
clockhere