02.08.2009 22:29

Kríurnar,sundhundur og þurrkarnir endalausu.

 Það var ekki séð hver veisluföngin voru, en máfarnir og kríurnar höfðu greinilega lóðningartækin í lagi smástund undan Akrafjöru á Mýrum í dag.


 Stórfjölskyldan hélt grillpartý í gærkvöld og í dag var farið í lautarferð og komið við í Akrafjöru í leiðinni.

 Þungavigtarmaðurinn í fjörulallinu hefði örugglega viljað vera  á einhverju almennilegu hrossi við þessar aðstæður. En það eru ekki alltaf jólin.



 Það var svo einhver kynjaskepna þarna í fjöruborðinu sem erfitt var að átta sig á.



 Þetta var svo bara hún  Mýra að sækja eitthvað áhugavert í hafdjúpin og þó hún væri kvótalaus var hún ekki skottlaus.


 Og afastelpan lék á als oddi þó öldurnar væru dálítið  ógnvekjandi og hafgolan nöpur, þrátt fyrir sólina. Það lá ekkert illa á ömmunni heldur.



 Heimasætan og Mýra náðu svo ákaflega vel saman í sullinu.


 
 Yngri bóndanum þótti hinsvegar mjög áhugavert að hægt væri að nota fjörurnar í eitthvað annað en þvælast um þær með hrossakjöt í klofinu.


 Það er svo alveg magnað að vesturlandið er algjörlega afskipt með rigninguna þetta sumarið.
Ekki hefur rignt almennilega síðan  20. júní og þurrkarnir eru farnir að valda verulegum vandræðum.



 Þurrlendistúnin gulna nú hvert í kapp við annað og langtímaspárnar eru með rigningu um bókstaflega allt land næstu viku - nema á Vesturlandi.

 Nú er camperinn kominn á pikkann og stefnt á frí næstu vikuna. Þetta er draumaferðamátinn minn að geta farið í skipulagslaust frí, elt sólina og látið nótt sem nemur.

 Næstu vikuna er hinsvegar spáð rigningu um allt land. - Nema á Vesturlandi.

 Þeir sem telja sig sjá til sólar utan Vesturlands næstu vikuna, vinsamlegast láti vita.emoticon 
 
 
 
Flettingar í dag: 571
Gestir í dag: 178
Flettingar í gær: 740
Gestir í gær: 164
Samtals flettingar: 425048
Samtals gestir: 38907
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 22:44:53
clockhere