22.07.2009 21:59

Regnskortur, fyrrisláttarlok og hún Assa.


 Mér telst svo til að ekki hafi gert hér ærlega rigningardembu í rúman mán.

 Áburðurinn sem var bætt á rýgresið um miðjan júní liggur á akrinum óuppleystur og áburðurinn sem átti að berast á túnin milli slátta, er í sekkjunum enn og verður líklega komið í hús fljótlega og geymdur til næsta árs.

 Reynslan kennir manni hinsvegar það, að þurrkkaflarnir enda ávallt með rigningu, sem maður fær svo gjarnan  nóg af áður en lýkur.




  Minnugir þessa var drifið í að slá restina af fyrri slættinum á mánudaginn (um 20 ha. ) og  þrátt fyrir að vindurinn hér væri sirka helmingi meiri en fræðingarnir spáðu hélst heyið nokkurnveginn á túnunum. Þegar veðurhæðin sljákkaði svo í dag var brugðið við hart og múgað og rúllað, ágætlega þurru heyi þó ekkert hefði verið átt við það.

 Þetta urðu 314 myndarlegar rúllur og nú er Hestamiðastöðin komin með mjög ríflegar heybirgðir og rollurnar í Dalsmynni ættu að hafa nóg að bíta og brenna fram á næsta sumar. Kýrnar reyndar líka þrátt fyrir fyrirsjáanlegan uppskerubrest í hánni.

 Eftir er svo að slá  2.5 ha. af  rýgresi sem þýtur upp þessa dagana.

Þegar raksturinn stóð sem hæst hjá mér, hringdi svo í mig bóndinn sem keypti af mér 5 ára gamla tamda tík í vetur.

  Hann var bara að láta mig vita að það væri alveg botnlaus ánægja með gripinn. Frábær smalahundur og kæmi sér svo vel á heimilinu að það elskuðu hana allir.



 Mér þótti ákaflega gott að fá þetta símtal ekki síst vegna þess að þetta var  og er, annálaður smali og þekktur fyrir að eiga góða hunda.

  Hann þurfti reyndar að ganga dálítið á eftir mér að fá tíkina vegna þess að mér fannst hún ekki nógu góð fyrir hann.

 Það er búið að vera alltof mikið puð á mér í sumar og nú er bara að koma Campernum á bílinn og fara að skoða fjöllin og jaðarbyggðirnar.

 Það næst þó líklega ekki þessa helgina.emoticon

Flettingar í dag: 779
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 363
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 423175
Samtals gestir: 38529
Tölur uppfærðar: 3.5.2024 12:34:17
clockhere