08.07.2009 09:58

Hornstrandaferð - dagur 2

Þegar risið var úr rekkju um átta leytið var þokan mætt. Hefja átti göngu  stundvíslega (gott á kennarana kl. 9. Menn smurðu nesti, við Sif með allt of mikið eins og vanalega, skelltu aukafötum í dagpokana og vorum, flest, tilbúin á réttum tíma. Stefnan var á Kálfatinda og Hornbjarg, en ef það yrði þoka á Kálfatindum yrði farið í Hornvíkina í staðinn. Þetta var áætluð 8-10 tíma ganga og eins og Guðni gæd sagði" það er bratt upp á Kálfatindana en enginn hefur snúið við" Hm, við Sif ætluðum nú að sjá til þegar nær drægi. Þokan minnkaði þegar gangan upp í Almannaskarðið hófst og menn fækkuðu fötum á leiðinni framhjá Blakkabás, upp Litlubrekku, Stórubrekku og Sigmundarhjalla. (Öll örnefnin eru bara til heiðurs Sif sem hafði enga trú á minninu hjá mér.) Þegar upp í skarðið kom sást að Kálfatindar voru þokulausir og stefnan sett þangað.


Skófnaberg næst, svo Eilífstindur, Kálfatindar fjærst og þar á hæsta tind 534 metrar.

3 konur ætluðu ekki upp og skildu þarna við hópinn og gengu niður í Hornvíkina og ætluðu að bíða okkar þar. Svona rúmlega klukkutíma bið sagði Guðni en varð nú ansi miklu lengra. Leiðin lá meðfram bjargbrúninni, ekki samt skelfilega nálægt, og framhjá Harðviðrisgjá, Skófnabergi, Eilífstindi og meðfram Kálfatindum til norðurs þar sem ganga skyldi upp.

Gengið upp á Kálfatinda.Séð niður í Hornvík, þar vorum við 3. daginn og óðum ósinn. Ansi kalt.

Uppgangan er  brött en ekkert alltof nálægt brún svo þetta slapp allt til þrátt fyrir lofthræðslu. En ég var ekkert að kíkja mikið fram af brúninni. Guðni varaði okkur við að labba ekki fram af eða halla okkur fram á stafina nærri brúninni. Lítil hætta á að ég gerði það!

Töluverður spölur eftir enn og alveg asskoti bratt.
Þegar upp var komið var tekin fyrsta matarpásan og eins gott að missa ekkert því það fór strax á fljúgandi siglingu niður. Þegar við vorum svo að byrja niðurferð sást þokan koma upp með berginu.


Við gengum svo sem leið lá niður að Hornbæjunum. Á leiðinni hittum við Jón landvörð sem hefur aðsetur í Hornvíkinni. Hann hafði skotist þarna upp til að hringja, var orðinn matarlítill.  Hann fræddi okkur um lífið þarna áður fyrr og endaði á smá fyrirlestri um göngustafi sem hann taldi eingöngu nothæfa ef menn ætluðu í svona megrunarátak. Ef við vildum endilega hafa þá ættum við að halda utanum þá miðja og hafa þá fyrir aftan bak og læðast svo um landið líkt og gömlu bændurnir. (þúfnagöngulag). Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur var alsæll með þetta því hann var sá eini sem var ekki með stafi. Fyrirlesturinn hafði greinilega áhrif og fleiri og fleiri fóru að nota Mýramannagöngulagið. Veðrið daginn áður hafði víst verið einstaklega gott þarna í Hornvíkinni því Jón hafði hrært tvær Bettý Crocker kökur, sett plast yfir og grafið í fjörusandinn. Eftir 2 tíma voru þær fullbakaðar! Við pöntuðum umsvifalaust kökur  þegar við kæmum til hans eftir 2 daga.

Jón landvörður áður en stafafyrirlesturinn hófst.
Nú lá leiðin niður Múlann að gömlu bæjunum í Horni. Þar var smá pása áður en lagt var upp á Hornbjarg. Það var mun léttara labb á ská upp hlíðina. Eftir stutt stopp þar var svo gengin sama leið heim og sáu menn heitu sturtuna í hillingum. Þetta endaði sem 10 tíma labb og þegar ég skreiddist úr rúmi næsta morgun voru "framlærisvöðvarnir" stirðir.
Gönguveðrið var fínt, logn, hlýtt en það vantaði sólina svona til að ná sem allra flottustum myndum. Myndirnar  sem hér fylgja eru  mest frá Guðrúnu sem er frá Fáskrúðsfirði. Sif á líka nokkrar. Svo ekki taka mark á þessu Iðunnar vatnsmerki á myndunum. 


Flettingar í dag: 1768
Gestir í dag: 112
Flettingar í gær: 2949
Gestir í gær: 288
Samtals flettingar: 432696
Samtals gestir: 39915
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 08:07:06
clockhere