23.05.2009 02:14

Byggræktin og blótsyrðin.


  Það er hægt að skipta byggræktinni í svona þrjú áhættutímabil, sem geta kallað fram slæman munnsöfnuð og hugrenningar hjá eldri Dalsmynnisbóndanum ef illa gengur.

 Nú er því fyrsta, sáningunni lokið og óhætt að segja að þetta hafi verið vont tímabil hvað ofangreint varðar.
  Sáningin gekk seint og illa sem þýðir það að önnur bráðnauðsynleg vorverk svo sem áburðargjöf og grænfóðurrækt dragast úr hömlu, en akuryrkjunni þetta vorið lauk í gær með völtun á grænfóðurökrunum. 
 Hér var sáð í um 17 ha. í byggi og 5 ha. með rýgresi þetta árið. Rýgresið er ætlað til beitar og sláttar en reiknað er með að slá meirihlutann af því tvisvar og beita það síðan í haust.

 Yngri bóndinn sem sér um þennan hluta rekstrarins að mestu, ásamt áburðargjöfinni á túnin hefur lítið sést, þar sem hann er m.a. yfirsáningarmeistari hins forna Eyjarhrepps og þótt víðar væri leitað.


  Hér er fallegur byggakur í ágústbyrjun. Rétt er að taka fram að Vaskur er með allra stærstu Border Collieum sem sjást.

 Vonandi verður sumarið svo gott að það bæti upp þessa síðbúnu sáningu og áburðargjöf sem er ekki nærri lokið ,

  Seinni áhættutímabilin í byggræktinni eru þreskingin í haust og síðan lokauppgjörið á dæminu, sem þýðir oft afspyrnuslæman munnsöfnuð þegar taptölurnar fara að skýrast.


 Ef öll tímabilin reynast slæm er áframhaldandi byggræktun komin í nokkra hættu a.m.k. þar til komið er að fræpöntun fyrir komandi vor.



 Þá safnast ræktunarhópurinn saman, fær sér nokkra bauka, fyllist bjartsýni fyrir komandi ræktunarár og pantar sáðbygg sem aldrei fyrr.


Þessi hringrás á nú kannski við um fleiri þætti búskaparins en byggið.emoticon 

 
Flettingar í dag: 96
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 1053
Gestir í gær: 39
Samtals flettingar: 423545
Samtals gestir: 38550
Tölur uppfærðar: 4.5.2024 09:09:32
clockhere