09.04.2009 20:58

Dottað á rebbaveiðum.


  Ég hrökk alltí einu upp, þar sem ég hafði dottað í skothúsinu. Þó aðeins væri farið að skíma dugði það mér ekki til að sjá almennilega yfir á ætið sem var í um 80 m fjarlægð. Það var hálfauð jörð og snjóhraflið var ekki til að bæta málin en tunglið hafði brugðist mér að mestu um nóttina.

 Ég seildist í kíkirinn og fannst eitthvað öðruvísi en það átti að vera við ætið. Og viti menn þarna hreyfði sig refur og gamla góða adrenalinkikkið helltist yfir mig.


 Rebbabúð, einföld og látlaus. Efnið í hana kostaði undir 25.ooo kalli á sínum tíma og manni fannst þetta vera  5 stjörnu svíta, eftir það sem á undan var gengið í skothúsamálum.

 Ég hafði mætt í Rebbabúð um ellefu og byrjað á að leggja mig, því ég átti ekki von á umgangi fyrr en seint um nóttina, en 1 - 2 dýr voru farin að sniglast í kring um ætið síðustu næturnar. Það hafði verið logn um kvöldið en stöðugt bætt í vindinn og nú lá við að tæki í kofann í rokunum.
 Mér fannst það skárra en lognið, því ofurheyrnin í rebbanum nýtur sín ekki eins.



       Já, það eru ár og dagar síðan maður gat átt von  að ná nokkrum dýrum sömu nóttina við æti í Eyja 0g Miklaholtshreppnum..

 
Þó áttatíu m séu stutt riffilfæri í björtu er það ógnarlangt í skuggsýnu og mér gekk illa að koma rebbanum ínn á kíkinn hjá mér. Þegar krossinn kom á mórautt dýrið hvarf hann, en þar sem ég gat lýst krossinn rauðan, bjargaði það málunum. Þetta dýr var frekar rólegt en við svona skilyrði er erfitt að ráða við hlutina þegar dýrin eru á fleygiferð um svæðið.

   Þegar Móri var allur, leit ég á klukkuna. Hún var að verða hálf fimm. Þó það væri verulegur hrollur í mér, ákvað ég að doka við til sex, kveikti á gasprímusnum og dottaði ekki meira. Nú fór að birta og ekki þurfti að grípa til kíkisins meira. Um 6 leitið var tekið saman . Það tók því ekki að leggja sig fyrir fjós og til að taka endanlega úr mér hrollinn var farið í pottinn. Það hef ég ekki gert fyrr á þessum tíma sólarhringsins.


 Ætli ég fari ekki að verða of gamall fyrir þetta.?
 
´

Flettingar í dag: 2207
Gestir í dag: 159
Flettingar í gær: 2949
Gestir í gær: 288
Samtals flettingar: 433135
Samtals gestir: 39962
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 17:02:15
clockhere