04.04.2009 17:03

Vorið er komið og ????


  Það var stafalogn og hlýtt þegar ég gekk léttum fjaðurmögnuðum skrefum til gegninganna í morgunsárið.
 Það voru auðheyrilega miklir flotar af álftum og gæs á flugi  frá náttstað í akrana í  sveitinni.
Það er verið að hreinsa upp það sem fuglar og mýs hafa ekki komið í lóg í vetur og öllu friðvænlegra að eiga við það núna en á haustdögum.



 Eitthvað af þessum lifðu af hernað haustsins og eru mættar galvaskar í íslenska vorið.

  Það var ekki slegið slöku við í dag, því nú er allt að verða syngjandi vitlaust í sveitinni í endalausum verkefnum.
  Nú dugði ekkert góðviðriskjaftæði, heldur var lokið við að rýja féð. Þar sem ærnar eru tví eða margbreiðar hafa þær hlotið extra meðferð síðasta sólarhringinn til að auka líkurnar á að þær og bændurnir lifi þetta af.


 Þær eru skildar eftir í hálfullu til að gulltryggja að engar búsifjar verði af v.v.v. sýkingunni. Það kostar nokkurra klst. snyrtivinnu í haust en komi tímar og komi ráð.



 Amman og ömmustelpan mættu svo og byrjuðu óðara á að bæta þessum horrenglum upp lélegan viðurgjörning síðasta sólarhringinn.

  Amman og dótturdótirin brugðu sér síðan á Línu Langsokk suður í Brún. Þær gátu svo í hvoruga löppina stigið fyrir ánægju með sýninguna og hún Lína var alveg rosalega góð.


   Vonandi tekur sú stutta ekki upp ýmsa siði frá henni Línu.

  Já nú er vorið komið. - Þar til annað sannast.

  

Flettingar í dag: 1702
Gestir í dag: 105
Flettingar í gær: 2949
Gestir í gær: 288
Samtals flettingar: 432630
Samtals gestir: 39908
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 06:50:47
clockhere