11.02.2009 09:27

Ólafur ,Davíð og hundatamningar.


  Stundum kemur að máli við mig fólk sem heldur að ég sé góður í að temja hunda.

 Þar sem mér finnst frábært ef einhver heldur að ég sé góður í einhverju, segi ég þessu fólki yfirleitt eitthvað gáfulegt um hundatamningar.

  Ég legg alltaf ofuráherslu á, að ef tamningin eigi að ganga verði þjálfarinn að vera afdráttarlaus leiðtogi í augum hundsins. Það þarf síðan margt til, svo hundurinn líti á mann sem leiðtoga sinn en tvennt það mikilvægasta er að hundurinn beri takmarkalausa virðingu fyrir húsbóndanum og treysti honum fullkomlega..

  Á þessum síðustu og verstu tímum hvarflar stundum að mér að nú sé eins og ógæfu Íslands verði allt að vopni.

  Okkar ástkæri og alþýðlegi forseti stendur fyrir hverri bombunni á fætur annarri og sér ekki fyrir endann á því. Það að taka fréttamannafund í að útskýra fyrir þjóðinni hvað  Jóhanna og Steingrímur ættu að gera að lokinni stjórnarmyndun var í besta falli barnalegt. Annar fréttamannafundur var tekinn í langar rökræður um túlkun á stjórnarskrárákvæðum.

 Það toppar þó ekkert það, þegar kemur í ljós að forsetinn býður til sín í kvöldverðarveislu ýmsum erlendum blaðamönnum( einum í einu) og setur ekki þau skilyrði sem þjóðhöfðingar setja undantekningarlaust fyrir slíkum viðtölum, að embættið fari yfir viðtalið fyrir birtingu.

 Sá sem síðast hlotnaðist þessi heiður hefur greinilega ekki þolað einnar og hálfrar stundar einræðuna. Við verðum nú að hafa skilning á því.

  Hinn ástkæri leiðtoginn okkar til margra ára, sá sem leiddi okkur af mikilli sannfæringu breiða veginn til glötunar er svo annar kapítuli út af fyrir sig. Hann hefur sömleiðis magnað óáranina með 
allskonar upphrópunum og fjölmiðlafári og er fjarri því, að þar grilli í lokin á ævintýrinu.

  Nú er hann kominn í alvöru stríð og ljóst að hann ætlar að hámarka það tjón sem hann getur mögulega valdið þessari ríkisstjórn, skrílsins og kommúnistanna. Það skiptir engu máli í þeim leik hvernig fer fyrir okkur vesalingunum sem berum auðvitað alla ábyrgð á völdum þessarra snillinga og borgum fyrir grínið.

  Ég verð að viðurkenna það, að ég óttast dálítið eitthvað sem hann er með uppi í ermunum.

 Ég hef samt engar áhyggjur af margræddum starfslokasamningum því  þeir Davíð og frammararnir
voru búnir að gulltryggja svo eftirlaunapakkann sinn, að það toppa það engir starfslokasamningar.

  Já, ég held að þeir Ólafur og Davíð hefðu ekki orðið góðir í að temja hunda.emoticon 
 
Flettingar í dag: 1768
Gestir í dag: 112
Flettingar í gær: 2949
Gestir í gær: 288
Samtals flettingar: 432696
Samtals gestir: 39915
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 08:07:06
clockhere