09.02.2009 09:29

Fjöllin og fjórhjólin.


  Mér finnst gott að hafa fjöllin nálægt mér.

 Þó að það kosti trúlega nokkra metra í auknum vindstyrk öðru hvoru.
Það róar mig ótrúlega niður á slæmum degi að virða fjallahringinn fyrir mér og rifja upp góðar stundir .

  Kannski er þetta vegna þess að ég er alin upp við fjöllin og þekki ekki annað. Kannski eru það genin úr Húnaþingi , Svarfaðadalnum og héðan af nesinu sem gera mig að þessu viðundri sem ég er en hvað um það.



                                       Svartafjall nær, Skyrtunna fjær

  Mér finnst ekki nóg að hafa fjöllin fyrir augunum og finna fyrir þeim þegar hvessir. Til að halda geðheilsunni þó ekki slakari en hún er, verð ég að komast á fjöll öðruhvoru.

  Næstu mánuðina verða það fjórhjól og sleðar sem bjarga málununum. Í júní er svo mikil törn í grenjavinnslu og girðingarvinnu. Haustinu fylgja svo miklar ferðir um fjöllin við að ná fénu til byggða.
  Þetta er ekki alltaf tóm sæla því þegar þokan og úrkoman læðist yfir í grenjavinnslunni fylgir því engin sælutilfinning. Nema fyrir rebbann sem getur óhræddur snuðrað í kringum mig í dauðafæri án þess að hafa áhyggjur.
Og leitirnar eru orðnar með öðru sniði nú, en þegar ég þrammaði um í eftirleitunum í allskonar færi og stóð varla í lappirnar þegar heim var komið. Þetta var þó á þeim árunum sem maður var þindarlaus og úthaldið eftir því. Á þessum árum lærði maður líka að veðurfarið gat verið talsvert annað eftir að komið var uppfyrir ákveðna hæðarlínu.


                         Hesturinn er alltaf flottur, sama hvaða hlið snýr að manni.
 Það var svo lagt á fjórhjólin í gær því snjósleðafærið er ákaflega dapurt þennan veturinn.



 Fjórhjólafærið var heldur ekki til að hrópa húrra fyrir og versnaði eftir því sem ofar í fjallgarðinn kom.



 Þegar mikið gengur á lætur oft eitthvað undan og það tapaðist loft úr dekki. Samstilltar björgunaraðgerðir skiluðu þó árangri og það náðist loftdæla á staðinn.


Það er svo ákaflega þýðingarmikið að umgangast fjöllin með þeirri virðingu sem þeim ber.

Því þegar þau bregða á leik með veðurguðunum er miskunnarleysið algjört.emoticon
Flettingar í dag: 2105
Gestir í dag: 132
Flettingar í gær: 2949
Gestir í gær: 288
Samtals flettingar: 433033
Samtals gestir: 39935
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 12:17:25
clockhere