07.01.2009 23:07

aukakílóin og kreppan.



                Eftir óvanalegt annríki hjá mér í haust og vetur, var slakað á um jólin.
 Reyndar fer  ég í fjós flesta daga og ekki er féð svelt, en öllu öðru er haldið í lágmarki.
Aukakílóið + frá fyrri jólum náðist aldrei til baka og trúlega fer eins með það sem bættist við núna.

 Og  þó, kannski þau hverfi í kreppunni.emoticon 

 Það tekur svo alltaf góðan tíma að koma sér í gírinn aftur, en þó var drifið í því í dag að keyra út undan fénu í gömlu fjóshlöðunni. Það hafði verið ákveðið að fresta því í haust vegna lágrar stöðu taðgólfsins en nú horfði til vandræða hjá þeim veturgömlu.
 Þetta er létt verk og löðurmannlegt eftir að Sjeffer hestamiðstöðvarinnar mætti til starfa í sveitinni, en hann læðist um allt án mikilla forfæringa á milligerðum.



  Þetta skotgekk og ég minntist þess þegar maður bar taðið á sjálfum sér í gamla daga og munaði náttúrulega ekkert um það.



  Þessi tekur samt aðeins meira í ferð og ótrúlegt hvað þetta kríli réði við.
Það rigndi svo alveg stanslaust í allan dag, og gerir enn. Það væri komið gott snjósleðafæri ef þessi úrkoma væri öll í föstu formi. Jörð er að verða klakalaus á ný og vélamaðurinn á bænum hyggur á skurðgröft á morgun og ýtuvinnu eftir helgina.

  Ég mun hinsvegar bregða mér norður yfir heiðar á morgun með hestakerru meðan hálkuleysið varir.

    Ætli sé eitthvað til sölu, af efnilegu á tamningaraldri í húnaþingi?emoticon 

 
Flettingar í dag: 2543
Gestir í dag: 264
Flettingar í gær: 2914
Gestir í gær: 601
Samtals flettingar: 430522
Samtals gestir: 39779
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 20:33:10
clockhere