04.12.2008 08:55

Hollur er heimafenginn baggi.


  Fyrir margt löngu þegar ég var endanlega búinn að setja kúrsinn á búskapinn hafði ég uppi margvísleg áform um framtíðina.

  Eitt af því sem ég ætlaði mér að afleggja snarlega þegar ég yrði einn og óháður var heimaslátrunin sem mér leiddist ákaflega.
 En ekki gengur allt eftir sem áformað er og fljótlega sætti ég mig við að halda dampi í þessu sem öðru. Þegar farandslátrari fór síðan að fara um héruð varð þetta léttara og síðan yfirtók tengdasonurinn fláninguna þegar  hann hætti að þjónusta okkur. Heimavinnslan hefur samt tekið ýmsum breytingum og síðustu árin eru stórmarkaðirnir látnir sjá um hangikjötið og stundum saltkjötið líka.

  Eftir að mín heittelskaða komst yfir bjúgnauppskriftina hjá henni Guggu í Skógarnesi hefur bjúgnagerðin hinsvegar fest sig í sessi enda ekki á færi stórmarkaða að slá þeim Guggu við í þessum efnum.

    Hér eru síðan húsmæðurnar á hlaðinu að leggja lokahönd á bjúgnagerðina.

Þegar kemur að reykingunni verðum við vesturbakkamenn að viðurkenna vanmátt okkar. Þá kemur sér vel að vinir mínir á austurbakkanum eru bóngóðir og vilja allt fyrir vini sína gera.



  Það er alltaf vísir á jólaskap að komast í matarlegan reykkofa og hérna var Áslaug í Mýrdal búin að loka bjúgnaferlinu og bara eftir að drífa bjúgun heim ,  setja upp pott og staðfesta að þetta væri enn einn frábær árgangur í bjúgnaframleiðslunni.

 Á leiðinni upp að Mýrdal sá ég ekki betur en það væri komið nýtt hús í Hrauntúni síðan ég fór hér síðast um í björtu.

  Þarna er byggt hátæknifjós og mér er sagt byggingarframkvæmdirnar hafi tekið fjörkipp í hvert sinn sem banki fór á hliðina í kreppunni.



  Þannig á að taka þetta og bóndinn þarna er fyrsti austurbakkabóndinn sem kemur bygginu sínu í þurrkun hjá okkur á vesturbakkanum. Það segir mér að þetta sé framsýnn snilldarbóndi sem er mei...................................................... já ekki orð um það meira.


Og bráðum koma blessuð jólin.emoticon


Flettingar í dag: 2081
Gestir í dag: 125
Flettingar í gær: 2949
Gestir í gær: 288
Samtals flettingar: 433009
Samtals gestir: 39928
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 10:58:51
clockhere