15.10.2008 19:11

Förgun og talnaflóð.


  Jæja, hver heldur þú að meðalvigtin sé spurði mín heittelskaða með pókersvip, þegar ég kom úr fjósinu í gær. Trúr síðustu athugasemd á síðasta bloggi sagði ég 16.8 kg. umhugsunarlaust.
  Frúin brosti glaðhlakkalega eins og hún hefði litaröð á hendinni og rétti mér vigtarseðilinn nýrunninn úr prentaranum. Það varð ljóst að allt svartsýnisrausið síðustu dagana hefur haft afleit áhrif á spádómsgáfuna því meðalvigtin var um 1/2 kg meiri en í fyrra.
 Við nánar skoðun á blaðinu kom í ljós að það var góð ákvörðun að breyta um sláturleyfishafa, því matið var mun betra en s.l. haust. Þrátt fyrir hærri meðalvigt var fitumatið betra og flokkunin í samræmi við það. Þetta minnti mig á gömlu góðu dagana þegar lagt var inn í Borgarnesi og ég var sannfærður um að Lilja væri sá matsmaður í Íslandi sem hefði langbest vit á því hvernig lambsskrokkar ættu að líta út.

   Meðalvigtin var 17.49 kg.   Meðaleinkunn fyrir gerð 9.59 og fyrir fitu 7.08 ( 2007 var gerð 9.2 og fita 7.5.) en fitan hefur stundum/oft reynst vandamál en þó mismikið eftir matsmönnum sem er ekki gott.

  Þar sem ég veit af þónokkrum sem heimsækja mig hér og botna ekkert í þessum tölum er rétt að þreyta þá enn betur.

  Sú tvílemba sem skilaði mestu kjöti komst í  42.9 kg.
  Þrílemba                                                    47.2  kg
  einlemba                                                    25.4  kg.
  og tvílemdi gemlingurinn sem skilaði mestu.  33.7 kg.
 En vegna mikillar frjósemi þurftu nokkrar ær að ganga með þremur lömbum og gemlingar með tveimur.

   Og til marks um bjartsýni okkar Dalsmynnisbænda ásamt ofurtrú á stjórn þessa lands og Seðlabankans og náttúrulega á þjóð vora og fósturjörð, kom fyrsti trailerinn með áburð næsta vors til okkar í gær . Restin mun væntanlega berast okkur í vikunni.emoticon 
 Og þar sem þetta blogg fjallar að mestu um lömb sem eru komin yfir móðunu miklu eru engar myndir leyfðar.
Flettingar í dag: 1805
Gestir í dag: 113
Flettingar í gær: 2949
Gestir í gær: 288
Samtals flettingar: 432733
Samtals gestir: 39916
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 08:53:00
clockhere