24.09.2008 22:17

Landi, koníak og útafakstur.



  Ég geri ekki ráð fyrir að fjármálaráðherrann hafi verið með landa, svaraði Jón á Högnastöðum blaðamanni DV sem spurði hann hvaða áfengistegund  Árni Matt hefði haft um hönd í réttum  á suðurlandi.( Ég sá fyrir mér hvernig Jón glotti út í annað rétt eins og í gamla daga). Blaðamaðurinn var að gera veikburða tilraun til að gera frétt úr réttarferð ráðherrans með ráðherrabílstjóra og sv. frv. Rétt eins og bændaræflum á suðurlandi væri ofgott að þiggja koníakssjúss hjá ráðherranum á þessum þrengingartímum.

 Við lestur fréttarinnar rifjaðist upp fyrir mér þegar Árni hringdi í undirritaðan fyrir nokkrum árum .
 Það var um hávetur og ég var rétt kominn inn frá kvöldmjöltum . Árni kynnti sig léttur í máli, spurði hvort fjósverk væru búin og hvernig nýja fjósið reyndist. Ég velti fyrir mér hver dj. væri í gangi því mér vitanlega vissi hann ekki hver ég var hvað þá heldur meira. Það kom á daginn að bíll ráðherrans hafði í hálkunni, lent utanvegar rétt sunnan Dalsmynnis og væntanlega hefur Árni hringt í e.h. kunnugan á svæðinu og fengið í leiðinni ýmsar upplýsingar um væntanlegt fórnarlamb.

  Þegar ég mætti á svæðið kom í ljós að bíllinn hafði farið útaf rúmlega meters háum kanti og endað förina í djúpum skurði sem var reyndar fullur af snjó. Með Árna í för var kempan Einar Oddur og var greinilega ýmsu  vanur. Hann stjórnaði aðgerðum , hnýtti bandið og sagði bílstjóra til og allt komst þetta heilt á veginn aftur. Þeir félagar voru á leið á fund í Hólminum og sögðu sem satt var að þar myndi ekkert gerast fyrr en þeir mættu. Þeir kvöddu mig svo með handabandi og þökkuðu greiðann ,Árni fyrst. Handtakið hjá Einari sem var alltaf nokkurra punkta maður hjá mér, var fast og traustvekjandi, Hann þakkað mér vel og sagði um leið og hann sneri frá mér . Þú færð svo sendingu frá okkur.

  Mörgum mánuðum seinna kom svo áritað kort frá þeim félögum ásamt koníaksflösku.

 Þá varð mér hugsað til handtaksins hjá Einari.
Flettingar í dag: 565
Gestir í dag: 175
Flettingar í gær: 740
Gestir í gær: 164
Samtals flettingar: 425042
Samtals gestir: 38904
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 21:59:03
clockhere