18.08.2008 23:28

Giftingar og hin frjálsa samkeppni.


  Við erum ellefu systkinin og þegar fermingarnar voru sem flestar í den sátum við 4-5 veislur sama vorið. Aldrei klikkaði þó skipulagningin þannig að veislurnar rækjust á hjá hinum skipulagða kvenlegg ættarinnar.

  Nú bar hinsvegar svo við að eitthvað fór úrskeiðis, eða eins og einn orðaði það, að nú ræður hin frjálsa samkeppni, allavega bárust okkur systkinunum með stuttu millibili boð í tvær giftingar á sama tíma og sama dag. Önnur austur í Mýrdal en hin í Reykjavíkinni. Og voru nú góð ráð dýr. Hér í Dalsmynni vorum við í tiltölulega góðum málum. Ættmóðirin var send í Reykjavíkurveisluna en ég fór í Mýrdalinn ásamt minni heittelskuðu. Giftingarnar fóru síðan fram með miklum stæl kl. 4 á laugardeginum. Síðan hittist systkinahópurinn allur(nema Skabbi )  í sextugsafmæli Möggu systur á Vatnskarðshólum á sunnudeginum en það var einmitt Eva dóttir hennar sem gekk að eiga hann Fúsa sinn daginn áður. Í Reykjavíkinni voru það Gummi og Nína sem gengu í það heilaga og til hamingju með þetta öllsömul. Ég ætla svo ekkert að lýsa því nánar hvað gengur á þegar systkinahópurinn nær  saman.

  Það var búið að spá roki og rigningu á suðurlandinu og þessvegna var ákveðið að taka góða veðrið af Nesinu með austur. Þeir Mýrdælingar litu hinsvegar oft til lofts um helginu og skildu ekkert í þessu rigningarleysi. Þeir bölvuðu þó veðurfræðingunum tiltölulega lítið fyrir spámennskuna  í þetta sinn, enda sýndist þetta allt standa til bóta með rigninguna, um það er við Snæfellingarnir yfirgáfu svæðið seinnipart sunnudags.

  Það er svo væntanlegt myndablogg frá helginni.
Flettingar í dag: 2206
Gestir í dag: 250
Flettingar í gær: 2914
Gestir í gær: 601
Samtals flettingar: 430185
Samtals gestir: 39765
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 16:30:32
clockhere