11.07.2008 18:41

Flakk og fjárhundar.

 

    Gærdagurinn fór allur í flakk. Hann byrjaði reyndar illa, því þegar ég var á leiðinni niður í Hausthús að ná hryssu, sem fara átti austur í Ölfus hringdi dóttirin og bauð í kaffi . Ástæða þessarra almennilegheita var sú að Léttfeti hans Einars hafði með einhverjum hætti fengið mikinn áverka á flipann og fossblæddi. Þar sem ég hafði ætlað mér að verða dýralæknir þegar ég var lítill (pínulítill) þá er ég talinn nauðsynlegur þegar eitthvað bjátar á. Það dropaði þétt og öðru hvoru stóð bunan úr sárinu dætrum mínum til mikillar skelfingar. Búið var að tala við dýralækninn sem var algjörlega slakur yfir þessu. Þar sem von var á honum til mín að kíkja á nýlega borna kú sem var með eitthvert letikast taldi ég rétt að fara yfir málin með honum . Niðurstaðan var sú að hann myndi kíkja á þetta fyrst til að róa stúlkurnar. Þegar ég sagði þeim það síðan að við Rúnar hefðum verið sammála um að blæðingin myndi hætta,allavega þegar blóðið færi að minnka féll það í grýtta jörð.
 
  Hryssunni var skilað í Ölfusið og síðan var setinn fundur á Selfossi. Sá átti að taka rúman klst. en það teygðist úr honum svo klukkan var orðin rúmlega fimm þegar brunað var að Þjóðólfshaga en þar biðu tvær hryssur Söðulsholtsbóndans, Hildur og Gerpla eftir heimflutningi. Önnur fengin og hin verður sónuð  fljótlega.

  Á heimleiðinni var tekinn smákrókur og rennt við hjá Border Collie ræktandanum að Móskógum. Þar var skoðað um hálfsmán. got sem hefur þá sérstöðu að báðir foreldrarnir eru innfluttir, fulltamdir. Þó þetta virtust ósköp venjulegir hvolpar blandast engum hugur um að þarna eru góð efni  á ferðinni sem eiga eftir að sanna sig.
 Þar sem eig. þverneitaði að selja mér tíkina sem var fljótust til mín, var næst á dagskrá að sýna mér móðurina í kindum. Það að fara að vinna með hundi sem taminn er erlendis er ekki einfalt mál en bóndinn var búinn að ná talsverðri stjórn á Dot og var gaman að sjá til hennar.  Hún virkaði mjög vel á mig strax en hún tók vel á móti mér og er virkilega róleg og yfirveguð í vinnu og umgengni.  Eftir því sem ég verð eldri og fúlllyndari legg ég meira uppúr því að hundarnir í kringum mig séu ekki mjög stressaðir.

 Þarna var reist í fyrra fjölnotahús sem var tekið út að lokum. Það er með góðu dótahorni þó bóndinn sé nú slakari í þeim efnum en ýmsir sem ég þekki, hesthúsi og síðan rými fyrir 150 kindur í sjálffóðrun . Þetta var hrein snilld hjá honum og þegar kom á daginn að s.l. haust hafði hann keypt 40 gimbrar af sveitunga mínum,(Hofstöðum) var ljóst að hann er í virkilega góðum málum.

 Nú er bara að vita hvort hann vill selja mér hvolp úr næsta goti???

Flettingar í dag: 1373
Gestir í dag: 134
Flettingar í gær: 2914
Gestir í gær: 601
Samtals flettingar: 429352
Samtals gestir: 39649
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 03:29:14
clockhere