09.07.2008 15:01

Fjórði dagur Leiðartungur-Tröllakrókar-Víðidalur


Stórihnaus

Leiðin niður meðfram Stórahnaus
Þá var runninn upp mánudagur, frekar kaldur og nú voru dregnar upp síðu ullarnærbuxurnar hans Svans. Farið var af stað fyrir kl.10 og gengið sem leið lá inn Leiðartungur, víða kjarri vaxnar og eftir svona tveggja tíma labb var tekin góða pása því framundan var tæplega tveggja tím ganga upp á við, samt ekkert voðalega bratt. Það blés köldu enda skriðjökull þarna framundan og allir fegnir þegar pásunni lauk og hægt að fara að ganga sér til hita. Þegar upp var komið var gengið inn með gilinu og að tröllakrókum. Það  eru 7 km langir og nokkuð hundraðmetra háir móbergsveggir, allir mótaðir af vindi, vatni og jökli í alls konar form. Verulega stófenglegt. Ég gætti þess að fara ekki of nálægt brúninni! Þegar allir höfðu myndað nóg var gengið þvert yfir hásléttuna í átt að Víðidal. Ekki var tími að fara niður í hann að þessu sinni. Þar var búið fram undir lok 19 aldar, langt þaðan í næsta kaupstað. Gunnlaugur fararstjóri hafði látið brúa ána, við það meðal annars notuð þyrla, en brúin hafði farið fyrir 2-3 árum. Ofan í dalnum töldum við vel á annaðhundruð hreindýr. Einn ferðafélaginn átti veiðileyfi á hreindýr á þessu svæði og var held ég strax farinn að kvíða burðinum á tarfinum sínum úr dalnum til byggða. Vonandi verða dýrin kom nær vegasambandi í ágúst. Gunnlaugi langaði að fá GPSmælingu á gömlu leiðina upp úr dalnum og fékk Ingvar með sér. Þeir skokkuðu niður í dalinn að brúarstæðinu og svo varðaða leið til baka. Við hin gengum af stað eftir stikuðu leiðinni og þeir voru ótrúlega fljótir að ná okkur. Þarna var klukkan farin að ganga sex og til stóð að grilla lambalærin um kvöldið. Gunnlaugur fékk 2 léttfætta karlmenn (karlar grilla) með sér og ætluðu þeir að hraða för til skálans og kveikja upp og undirbúa grill. Á leiðinni höfðum við tínt einiber, blóðberg og birki til að krydda með. Grillmeistaranir töltu af stað og sást síðast til þeirra renna sér fótskriðu niður skriðurnar. Við hin gengum hvert á sínum hraða eftir vel merktri slóðinni. Síðasti hálftíminn var eftir flottri giljaleið með svipuðum þiljum og í Þilgili enda beint á móti þeim. Einnig var þarna ægifagur hvítgráblár kambur sem ég held að heiti Stórihnaus. Svolítið var þetta bratt á köflum, verst þegar eru brattar klappir með steinum oná. Þá væri gott að hafa eitthvað til að halda í. En við vorum farin að sjóast og gengum þetta tiltölulega óhikað, kannski ekki eins og fjallageitur en í áttina.

Menn voru duglegir að ljúka öllu hjartastyrkjandi þegar heim kom, gengu tappar með ýmsum "meðala"tegundum milli manna. Læri og meðlæti smakkaðist vel, dregnir voru upp rauð/hvítvínskútar, ótrúlegt hvað borið hafði verið niður Illakamb. Þegar uppþvotti og tiltekt lauk hófst kvöldvaka. Gunnlaugur stjórnaði og kynnti menn til leiks. Naut hann aðstoðar þjóðþekktra landsmanna við það, enda mikil eftirherma. Þegar kvöldvöku lauk komu í heimsókn gestir úr hinum skálanum, útvarpsfólk sem ætlaði að vera 2-3 daga á svæðinu. Sif varð verulega lúmsk og náði í hitt og þetta úr matarpokunum og bauð gestum. Sá fram á að þá þyrfti ekki að bera eins mikið upp næsta dag. Ein skálareglan hljóðaði upp á að ró skyldi vera komin um miðnætti og voru gestir farnir um það leyti. Önnur regla segir að skálaverði sé heimilt að vísa mönnum úr skála, neyti þeir áfengis UM OF. Hvað nákvæmlega þetta um of merkir vissi samt ekki  skálaverjan hún Katrín. En sem sagt allir komnir til kojs um miðnætti og ég get alveg viðurkennt að heiti potturinn og rúmið mitt voru farin að leita töluvert á hugann.
Tröllakrókar

Flettingar í dag: 241
Gestir í dag: 35
Flettingar í gær: 745
Gestir í gær: 119
Samtals flettingar: 420986
Samtals gestir: 38392
Tölur uppfærðar: 30.4.2024 14:40:45
clockhere