08.07.2008 11:17

Þriðji göngudagur Víðibrekkusker-Sauðhamarstindur-Þilgil


Kambarnir/þilin í Kambagili/Þilgili. Kambanafnið á að tengjast hanakambi

Víðagil, fallega röndótt.
Í dag var stefnan sett á fjallgöngu fyrir þá sem það vildu. Ganga átti á Sauðhamarstind sem er rúmlega 1300 m hár. Ganga átti í Viðibrekkusker sem er milli 6og 700 metrar og þar myndu menn skipta liði. Veðrið var fínt til göngu, ekki mikil sól og trúlega kalt á fjöllum. Farið var yfir ána á göngubrúnni og farið upp nafnlaust gil sem er oft kallað Flumbrugil. Nafnið tengist henni Flumbru í bókinni Tröllin í fjöllunum, en í þessu gil er klettur sem er ekki óáþekkur henni. Gengið er í gilbotninum og frekar bratt. Síðan lá leiðin upp á Víðibrekkusker. Þarna voru nokkrir skaflar sem við gengum og eins voru skaflar efst á tindinum. Þarna skiptist hópurinn. Nokkrir voru ákveðnir í tindagöngu, sumir ætluðu að fara af stað og sjá svo til og nokkrir ákveðnir í að sleppa alveg fjallgöngu, Ég var í síðasta hópnum, Sif ætlaði að sjá til. Þau fóru svo öll upp en mér skilst að það hafi verið töluvert púl. Því miður var orðið skýjað þegar þau komu upp svo útsýnið var ekki nógu gott. Við hin héldum af stað í átt að gili sem heitir Víðagil og slær held ég allt út í litadýrð, bláhvítt, svart og svo allir gulu og bleikulitatónarnir. Síðan er gengið meðfram Þilgili eða Kambagili, en þar eru rauðir þilflekar eftir endilöngu gilinu. Þeir voru eitt það flottasta og eftirminnilegasta sem ég sá í ferðinni, fóru inn á topp 5-listann hjá mér. Þarna uppgötvaði ég líka að ég var greinilega farin að sjóast í þessum skriðum því nú stoppaði maður alveg hiklaust í bröttum skriðum og skoðaði útsýnið (enda orðið þreytandi að skoða bara tærnar) Við vorum komin í skála svona um kl 5 en fjallgöngumenn um tveimur tímum seinna. Nokkrir tindfara skriðu snemma í bólið, orðnir lúnir en við hin tókum létta söngæfingu. Það olli söngfólki nokkrum áhyggjum að eini tónlistarkennarinn í hópnum stóð alltaf á fætur þegar söngur hófst, setti Ipod í eyrun og fór inn í herbergi sitt. Hann neitaði að vísu að það tengdist söngnum á einhvern hátt. Við létum þetta samt ekki á okkur fá. Aðeins bar á kvótabraski og virtist vera töluvert til af óseldum kvóta.

Allir voru komnir í poka fyrir miðnætti, næsti dagur yrði langur.

Flettingar í dag: 145
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 745
Gestir í gær: 119
Samtals flettingar: 420890
Samtals gestir: 38386
Tölur uppfærðar: 30.4.2024 12:01:06
clockhere