11.06.2008 21:54

Sleppitúrinn 1. Svínhólabóndinn.



  frá v. Dagný,Jón El.(bakvið,) Ásgeir, Svanur, Auðun,Gunni og kellingarvínið góða.

             Leiðin austur með hestana er um 600 km.héðan en stærsti hluti hrossanna var þó fluttur úr bænum. Það þarf ekki að hafa mörg orð um fólk sem flytur hross  slíka vegalengd til þess að ríða út í nokkra daga, enda sleppi ég því af tillitsemi við okkur ferðalangana.Við Einar ásamt Katrínu, vorum á trailernum með 10 hross. Þau voru laus í tveim stíum og fer mjög vel um þau. Auðun og  Stjáni voru með sína fjögurra hesta kerruna hvor og Jói og Ingibjörg voru með tveggja hesta kerru. Áður höfðu verið flutt 9 hross að Svínhólum  Lóni. Þar hafði hringferðinni lokið fyrir 7 árum efir 18 tíma áfanga úr Snæfelli. Nú átti að loka  þessari hringferð sem hófst á Kirkubæjarklaustri á síðustu öld.

      Við vorum snögg að losa hrossin á afleggjarann áður en við hentum upp girðingu til að minnka girðingarhólfið  fyrir þessa einu nótt. Ásgeir bóndi í Svínhólum var sóttur til að stjórna aðgerðum. Hann er eldsprækur öldungur kominn á níræðisaldur ,hvikur og léttur á fæti en stakk við eftir slit á hásin í fyrra. Hafði frá mörgu að segja og lá ekki á skoðunum sínum. Þegar Huntsmaðurinn í hópnum kom með púrtarann til að fagna þessum áfanga og ná endanlega  úr sér hrollinum eftir 18 tíma áfangann fyrir 7 árum lét Ásgeir sér fátt um mjöðinn finnast en bragðið væri þó ágætt. Þar sem honum hafði verið bent á eina alvörubóndann í hópnum taldi undirritaður rétt að sækja Whiskíið.
 Hafi Ásgeir verið í einhverjum vafa um hver væri aðalmaðurinn í hópnum var hann það ekki lengur og meðan við fórum yfir heimsmálin ásamt öllum hinum málunum þarna í vorblíðunni hélt meðalfólkið sig við "kellingarvínið." Þegar það upplýstist að hann væri nú með hjartagangráð og lifði á ómældum dagskammti af pillum og hefði ströng fyrirmæli um að neyta ekki áfengis leist mér ekki á blikuna og gerði mig líklegan til að loka fyrir veitingarnar. Þegar Ásgeir sá hvert stefndi fullvissaði hann mig um að hann væri löngu dauður ef hann hefði fylgt þessu læknisráði og tókum við þá óðara gleði okkar á ný.
  Hann upplýsti okkur nú um það, að í hrossahópnum sem komið var með til hans helgina áður hefði sloppið hryssa inn á heimatúnið og síðan hefði sloppið veturgamall foli úr nærliggjandi girðingu til hennar . Yndu þau vel hag sínum á túninu og væru í svona smá keleríi öðruhvoru. Þegar hann sá að okkur brá nokkuð við þessi tíðindi fullvissaði hann okkur um að folinn mynd ekki gagnast merinni enda  rétt um ársgamall. Ef eitthvað hefði gerst þyrftum við engu að kvíða. Þarna myndi þá verða til þvílíkt gæðingsefni að við fátt yrði jafnað. Folinn hefði borið svo af sláturfolöldunum  að ekki hefði komið til greina að láta hann fara. Gríðarlega stór og fallegur,reistur og fótaburðurinn skemmdi nú ekki fyrir.
 Þessar lýsingar vöktu umsvifalaust áhuga manna og stefndi nú óðara í hugsanleg viðskipti. Þó var talið rétt að geyma þau til morguns svo hægt væri að berja gripinn augum.

  Hópurinn sem þegar þarna var komið taldi  12 manns hélt síðan til gistingar á Stafafelli. Þar stillti síðan söngfólkið saman raddirnar fyrir væntanlegan söngflutning fyrir Suðursveitunga og aðra höfðingja sem ráku á fjörur okkar í ferðinni.

Flettingar í dag: 2560
Gestir í dag: 264
Flettingar í gær: 2914
Gestir í gær: 601
Samtals flettingar: 430539
Samtals gestir: 39779
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 21:16:05
clockhere