12.05.2008 04:27

Að loknu orlofi.

 

Nú er dótturdóttirin mætt úr orlofinu, kotrosknari sem aldrei fyrr og hefur lært fullt af nýjungum sem sumar hverjar munu auka vandræði afans og var þó ekki á bætandi.
 Það kom strax í ljós þegar afinn fór að þvo sér um hendurnar fyrir matinn að nú voru breyttir tíma. Sú litla gætir þess að missa ekki af handaþvottinum og var vön því að fá svona tvær salíbunur með puttana undir kranann og síðan þurrkuðum við okkur vandlega. Nú brá svo við að þegar ljúka átti hefðbundnum handþvotti með hraði, því afinn orðinn svangur og steikin komin á borðið, að þetta dugði ekki lengur. Nú var seilst í sápuna og handaþvotturinn framkvæmdur af mikilli alvöru og ljóst að þetta hafði verið gert að mikilli helgiathöfn hjá ömmu í Snartartungu. Þar sem bakið á afanum hefur sín takmörk er ljóst að nú verður að hafa meðferðis stól næst þegar dömunni dettur handaþvottur í hug.
 Ekki fer heldur milli mála að dansæfingarnar hafa verið stundaðar grimmt í fríinu því það eru komin ný spor í gagnið og sýnileg hraðaaukning á steppinu. Þarna hafa líka aukist vandamálin, því nú dugar ekki að slökkva á útvarpinu að áliðnum fréttunum. Það hefur nefnilega einhver kennt dömunni það, að nóg er að grípa einhvern nálægan , draga hann að útvarpinu og benda á starttakkann. Þegar gripið var til þess neyðarúrræðis að stilla á gömlu gufuna svo minna yrði úr dansmússikinni tók ekki betra við. Þá kom nefnilega á daginn að útvarpið var ekkert nausynlegt lengur þegar taka þurfti nokkur spor. Norður í Bitrufirði syngja menn bara "dansi dansi dúkkan mín" með dansinum og fljótlega varð öllum ljóst að það myndi verða raunin í Dalsmynni líka.
  Og enn og aftur er afinn í vondum málum því það er alls ekki fyrr en á tíunda glasi sem hann reynir sönglistina og verður ekki farið nánar út í þá listviðburði hér.
Flettingar í dag: 2219
Gestir í dag: 251
Flettingar í gær: 2914
Gestir í gær: 601
Samtals flettingar: 430198
Samtals gestir: 39766
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 16:53:41
clockhere