03.05.2008 23:34

Vorið er komið og!!

  Þeir sem hafa alið aldur sinn hér á nesinu síðustu 50 árin eða svo,  plús eitthvað, eru komnir með innbyggt mikið langlundargeð gagnvart veðurfari. Það verður samt að játast að þanþol undirritaðs var orðið ansi strekkt yfir norðaustanáttinni síðustu, guð má vita hvað marga daga. Nú er að bregða til betri tíðar og eins og ég spáði einhversstaðar er allt komið á fulla ferð. Þar sem allt síðastliðið haust var svona hálfgerð vætutíð eða þannig, náðist ekki að plægja akrana og eykur það álagið nú. Undanfarnir dagar hafa farið í að plægja og kalka/sanda á fullu og enn er verið að.  Bændurnir hér í Eyjarhreppnum sáluga  eru að sá í um hundrað ha. af byggi og síðan eru sumir með grænfóður til beitar eða sláttar til viðbótar. Hver er með sína akra þó uppskeran lendi svo í samkrulli um það er lýkur, nema félagið okkar, Yrkjar ehf. er með akra inn í Dölum. Þar verður plægt á morgun og síðan byrjað að sá þar, trúlega á mánudag .. Dalsmynni og Söðulsholt eru  síðan með eitthvað óljóst samkrull í vinnunni og vélunum sem gengur fínt enda kæruleysið ríkjandi. Atli sem er aðal plægingarmeistarinn  sér síðan um sáðvélina sem notuð er á svæðinu og fær að komast að því fullkeyptu í törninni sem framundan er.

  Sauðburðurinn er svo að bresta á, því samstilltu sæðisærnar eru að byrja. Nýheimta gimbrin úr Stóra Langadalnum var síðan að bera og þó lambið væri stórt "Slapp það til" eins og Skagfirðingarnir segja, með guðs hjálp og konunnar minnar náttúrulega sem dugar nú kannski betur í fæðingahjálpinni en ?.
Flettingar í dag: 70
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 2949
Gestir í gær: 288
Samtals flettingar: 430998
Samtals gestir: 39812
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 01:21:28
clockhere