06.02.2008 23:20

Fjárhundakeppnir.

 Nú þegar allt er að gerast í hundamálunum hjá mér og útlit fyrir  a.m.k 18 daga á föstunni muni viðri vel til tamninga hunda og hrossa miðað við öskudagsveðrið, þá fór ég að velta fyrir mér hvað fjárhundakeppni væri ólík öllum öðrum keppnum.
 Í keppnum eiga keppendur sína góðu og slæmu daga en ofan á raunir þeirra hunda og manna sem spreyta sig í fjárhundakeppnunum bætist að þeir eiga allt sitt undir 4 rollum sem sleppt er í brautina. Það verður að segjast eins og er, að mín reynsla af
 " keppnisrollum " er misjöfn og aldrei á vísan að róa að fá í brautina meðfærilegan hóp. Þegar maður stendur við staurinn og horfir á hópinn  birtast úr kerrunni er erfitt að spá í hvort þarna fer ljónstyggur hópur sem muni reyna allt hvað af tekur að sleppa eitthvað út í loftið eða hópur sem muni standa sem fastast og virða hundinn ekki viðlits þegar hann birtist og ætlar að dúlla þeim af stað.Öruggt að það er annaðhvort eða einhverstaðar þar á milli.  Verstar eru þær sem þjóta eitthvað út í loftið en skilja eina eða tvær eftir í bakvörninni. Ætli ég sé ekki búinn að taka þátt síðustu 8 haustin í einni eða fleiri keppnum og hef kynnst miklu fjölbreytilegra hegðunarmynstri í þeim heldur en í smalamennskum á þessum tíma enda atburðarrásin oft fyrirsjáanlegri þar. Þó rollurnar hafi lítið breyst þennan tíma hefur verið ákveðin þróun í gangi bæði í keppninni( reglum og dómgæslu) og hundunum sem allt er til bóta. Þegar hundurinn er sendur af stað frá staurnum hefur hann 100 stig í farteskinu sem hann fengi  ef rennslinu lyki án refsistiga. Þess eru nú engin dæmi enn, en með batnandi hundum gæti það gerst ef þjálar og meðfærilegar kindur myndu birtast í brautinni og það væri góður dagur hjá hundi og smala. Á þessum árum hef ég séð nokkra hunda(ekki marga) sem hafa verið það góðir að þeir réðu undantekningarlítið við allar þær aðstæður sem biðu þeirra í brautinni og luku rennslinu oftast með 65 - 90 stigum.
 Þegar einhverjir tugir slíkra hunda mætast í fjárhundakeppnum og reyna með sér verður gaman að lifa.  Spurningin er hvenær það verður??
Flettingar í dag: 160
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 863
Gestir í gær: 52
Samtals flettingar: 422193
Samtals gestir: 38486
Tölur uppfærðar: 2.5.2024 10:25:05
clockhere