28.01.2008 20:17

Alltaf blíða.


 Loksins gerði almennilegt veður en í stað þess að fara á hestbak og njóta þess, var farið í að gera upp gamlar syndir.  Loksins var hægt að sekkja byggið þeirra Barðstrendinga og nú er að koma því sem fyrst af stað þegar gefur og hálkan verður ekki mjög ógnvekjandi. Það var farið í að moka snjó af öllum þeim stöðum sem hann á alls ekki að vera,en þó var beðið með moksturinn að kjarnfóðursílóinu þar til vitað er hvenær í vikunni fóðurbíllinn kemur. Svo kom loks  að því, að mjólkurtankurinn yfirfylltist við morgunmjaltirnar og þarf að leysa það mál fyrir næsta mánudag. Til að byrja með verður væntanlega samið við mjólkurbílstjórann að tæma tankinn á vesturleið en hann er hér um 15 mín fyrir  kl. 7. Það gæti þýtt seinkun á mjöltum því sjálfvirka þvottavélin í tanknum þarf sinn tíma og erfitt að koma handvirku aðferðinni við.
  Fyrsta kálfs kvígan sem bar í gær er afar viðskotaill og ekki fyrir gamalmenni að eiga við hana. Mamma hennar er þó hinn mesti ljúflingur svo þetta eru örugglega einhver aðkomugen  eða þannig. ( Takið eftir því að ég minntist ekkert landnámskúna.)
 Og yngri bóndinn eyddi lunganum af deginum í það að smíða kjarnfóðurvagn fyrir hrossabændur norður í Skagafirði og kom það vel á vondan þvi hann fer ákaflega vel með hrossaáhugann. Já, Já, það týnist alltaf eitthvað til í sveitinni.
 
Flettingar í dag: 122
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 288
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 423859
Samtals gestir: 38576
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 06:13:35
clockhere