Færslur: 2011 Ágúst

29.08.2011 22:53

Rollusmölun , landskeppni, varðeldur eða brenna?

 Þetta árið var Landskeppnin haldin austur á Fljótsdal, að Eyrarlandi.

  Það er keppt í þremur flokkum A fl. fyrir reynsluboltana þ.e. hunda sem hafa keppt áður og hlotið yfir 50 stig í keppni.
  B. fl. er fyrir byrjendurna og reynsluminni hundana og svo er unghundaflokkurinn fyrir hunda undir 3 ára aldri.


 Hér er Calvin dómar ( frá Wales) að brjóta niður keppendurna fyrir lélega frammistöðu.

 Það voru mættir yfir 20 hundar og eigendur þeirra víðsvegar af landinu til að spreyta sig, ræða málin og hafa gaman af tilverunni. Og veðrið lék við okkur þarna í Fljótsdalnum.



 Ég mætti þarna með Tinna og Dáð, Tinna í unghundana og eftir talsverða íhugun ákvað ég að skella Dáð í úlfahópinn í A flokknum þrátt fyrir að hún væri rétt orðin 3 ára og ætti keppnisrétt í b.fl.



 Ég tók hreppstjóra þeirra vina minna á Austurbakkanum með austur, ásamt búrtíkum sínum tveim þó ég treysti þeim austurbakkamönnum illa til þess að vera hreppstjóralausir alla helgina.
 Hér fyrir ofan er hann að segja Fíu sinni að standa sig nú í unghundarennslinu fyrri daginn sem hún gerði.
Því miður gleymdi hann að segja henni það í rennslinu daginn eftir.



 Hér er Jón Geir mættur úr Skaftártungunni í fyrstu keppnina sína og er að segja Snúð hvernig eigi að gera þetta. Eins og þið sjáið er Snúður náttúrulega ekkert að hlusta  hann.


 Hér er hann Krati frá Dýrfinnustöðum sem ég rakst á þarna á röltinu. Hann er undan Asa frá Dalsmynni og þess vegna sérlega sterklega byggður og greindarlegur til augnanna. Og hann verður örugglega aldrei sárfættur.
Hann er svo heppinn að búa í Jökuldalnum sem er tímalaus veröld eftir að jökuldælir uppgötvuðu  að alltaf kæmi nýr tími á eftir þeim sem er að líða.


 Welski dómarinn og formaður íslenskra smalahundaeigenda, Sverrir á Ytra Lóni eru svo örugglega að ræða um hunda og tamningar.



 Á laugardagskvöldinu var grillveisla, " varðeldur" fjöldasöngur og nefndu það bara. Hér er slökkvistjóri þeirra Grundfirðinga að staðfesta það, að þetta sé " varðeldur ", en að vísu í stærra lagi.
 Munurinn á varðeldi og brennu er sá að brennuleyfi kostar fullt af peningum og stimpla frá aragrúa möppudýra ( og náttúrulega slökkvistjóra.) Varðeldur kostar ekkert.



 Tjaldið var þéttsetið og hér eru næst, Miðhúsabændur af ströndum vestur. Guðmundur mætti hundlaus í þetta sinn og það fór honum náttúrulega ekki vel.



 Varsi á Eyrarlandi og hans fólk var búið að leggja mikið á sig til að gera þessi keppnisdaga jafn frábæra og raun bar vitni en það þarf til dæmis 70 - 80 kindur fyrir  20   hunda keppni fyrir utan allt annað umstang í kringum þetta. Glæsilegt hjá þeim í Austurlandsdeildinni.



 Hér erum við Tinni svo að leggja af stað heimleiðis þennan 650 km. spotta sem var tekinn í beit  með 20 mín. áningu og hundapissi efst í Öxnadalnum.



 Dáð var í 5 sætinu af 10 hundum á A fl. með 130 st. sem var fínt og gefur auðvitað sterka vísbendingu um það hvílíkir afbragðshundar voru þarna á ferðinni( þ.e.a.s þessir 4). Tinni minn frá Staðarhúsum marði síðan unghundaflokkinn með 127 stig.
Það stóð tæpt því Alli á Húsatóftum með Kríu sína var með sama stigafjölda.

 Dómarinn ákvað að láta fyrstu 3 þrautirnar í brautinn ráða röðun og fyrst það dugði okkur Tinna til sigurs finnst mér að það hafi verið skynsamleg ákvörðun hjá honum.

 Aldrei að deila við dómarann.

Allt um úrslitin hér.
http://smalahundur.123.is/blog/

22.08.2011 22:56

Þuklarar,Hnallþórur og ?????

 Já , það var ákveðið að renna við hjá hrútaþuklurunum í Sævangi á vesturleið og kynnast rómuðu kaffihlaðborði strandamanna.



 Hér eru menn farnir að linast í drykkjunni þó borðin svignuðu enn af stríðstertunum. Mér finnst alveg rosalega gott að komast öðruhvoru í svona veitingar þar sem ekki er verið með einhverja smámunasemi í hollustunni. Og ég vonaði svo sannarlega að þessar kræsingar hefðu ekki orðið til í vottuðu eldhúsi.



 Það urðu fagnaðarfundir hjá mér og aðal Bassanum þó hvorugur okkar vissi þá, að hann væri verðandi heimsmeistari í hrútaþukli.



Ég ólst nú eiginlega upp á einum svona og það fór hrollur um mig þegar ég sá sætið í honum fullbúið þeim þægindum sem ég vandist i æsku. Það var dálítið langt á honum kúplingstigið og þar sem ég var lengi frekar stuttur í annan endann þurfti ég í nokkur ár að renna mér framúr sætinu og til hliðar til að botna kúplinguna. Nokkuð ljóst að ekki nýttust bremsurnar á meðan.



 Heimsmeistarinn í hrútaþuklinu hafði gefið mér góð ráð varðandi næturstað í Djúpinu og það var ekki honum að kenna að dregið var fyrir morgunsólina þegar hún átti að skína.



 En lognið var algjört og svona leit Ísafjörðurinn í morgunsárið. Þarna sést Svansvík sem er syðsta byggða ból í Súðavíkurhrepp og eina býlið í byggð norðan fjarðarins út með Djúpinu allt að Látrum ef ég man rétt.

 Þaðan er nú um stundir ekið grunnskólanemanda til Hólmavíkur daglega, ásamt 2 börnum úr Nauteyrarhrepp. Rúmlega klukkutíma akstur í góðri færð.



 Hér er svo fararstjórinn í ferðinni að vaða " alveg upp að hnjám" en á tímabili var það afdráttarlaust eitt af aðalmarkmiðum ferðalagsins.

17.08.2011 23:59

Ferðafólk, fjárhundar og lymskulegar austurbakkarollur.

  Danirnir sem komu til mín í dag voru trúlega síðustu túristar sumarsins á hundasjó.

Ég dekraði alveg sérstaklega við þá,  færði sýninguna og spjallið yfir á heimatúnið og plataði mína heittelskuðu til að sjá um spjallið en hún talar dönskuna eins og móðurmálið.



 Nú er þetta komið í nokkuð fast form og hefur tekið algjörum stakkaskiptum frá því að Óli hótelstjóri tók uppá því að senda mér ferðahópa á hundasýningu og gleymdi meira að segja stundum að láta mig vita.
  Það er byrjað á spjalli um búreksturinn og ísl. búskap  og síðan er farið sérstaklega yfir sauðfjárræktina og allt tengt henni.
 Ég hef að sjálfsögðu gætt þess vandlega að láta ekki góðar smalasögur gjalda sannleikans þegar ég bendi á nærliggjandi fjöll með ógnvænlegum klettum og gljúfrum og lýsi síðan þeirri glímu sem ég, en þó sérstaklega hundarnir mínir lenda í, þegar rollurnar hennar Þóru vinkonu minnar og annarra vina minna á Austurbakkanum verða lymskulegar til augnanna um leið og þær verða smala varar, og reyna að koma sér í næstu kletta eða klungur.



 Þó ég gæti þess nokkuð vel að sannleiksástin spilli ekki upplifun dananna, tekur þó steininn úr þegar gædarnir sem eru farnir að kunna þetta utanbókar taka við sagnfræðinni. Þeir tóku flugið vel í dag þegar þeir lýstu því hvernig réttarhaldið færi fram eftir að búið væri að ná fénu til byggða við illan leik.

 Það var svo skemmtileg upplifun þegar kom að kveðjustund að margir dananna ´þökkuðu mér innvirðulega með handabandi " tusind tak" og mikilli lotningu fyrir þetta.
Reyndar voru það sérstaklega eldri konurnar sem kunnu sig svona vel og áttuðu sig á þvílíkur snillingur og stórgúrú var hér á ferðinni ??

 Og ég trúi því auðvitað að þær séu mestu mannþekkjararnir ...


 
Flettingar í dag: 356
Gestir í dag: 82
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 419313
Samtals gestir: 38154
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 10:41:06
clockhere