Færslur: 2017 Júní
01.06.2017 21:07
Að rækta út " augað ".
Ég segi stundum ( en hugsa það oft ) að ekki sé nóg að hafa einhver stór nöfn í ættinni.
Þá er ég að tala um fjárhundaræktunina en ætli það eigi samt ekki við um fleira .
Þegar svo örvæntingin grípur mig heljartökum með einhvern vitleysinginn í kennslustund í smalahólfinu, grunar mig oft að í ættinni leynist eitthvað görótt sem hafi yfirtekið stóru nöfnin.
Reyndar læðist líka stundum að mér sá grunur að röngu genin erfist betur en þau góðu en þá er nú oftast tímabært að taka sér gott frí frá hundaþjálfun .
Eftir því sem ég verð eldri og værukærari legg ég meiri áherslu á meðfædda góða hæfileika í hundunum sem ég er að fást við. Af fjórum helstu áherslunum hjá mér vigtar " augað " eða vinnulagið þungt .
Vaskur frá Dalsmynni var með allskonar á milli eyrnanna ;)
Þessum eiginleika eins og ég sé hann, fylgir mikið öryggi í að fara fyrir, halda hóp saman og vinna af yfirvegun þó vinnuáhuginn sé mikill,- eða jafnvel mjög mikill.
Korka frá Miðhrauni með allt á hreinu.
Það verður svo bara að segjast af fullri hreinskilni að þetta er eiginleiki sem ég hef saknað of oft í tamningum liðinna ára.
Á síðasta ári og það sem af er þessu hef ég t.d. verið með nokkur eintök sem eru sæmilega ákveðin, mjög áhugasöm en síðri í vinnulaginu.
Samt gengið sæmilega að ná ásættanlegri vinnufjarlægð í nærvinnunni.
Þegar farið hefur verið að lengja úthlaupin kemur í ljós mjög einbeittur brotavilji í því að þrengja sig inní hópinn og ráðast á það sem tönn er næst en gefa skít í annað í hópnum.
Í sumum tilvikanna liggur gríðarleg vinna í að vinda ofanaf þessu ef það er þá hægt.
Í þessum tilvikum öllum, vantar augað / vinnulagið sem einkennir velheppnaðan BC.
Tinni frá Staðarhúsum og Lukka frá Hurðabaki.
Þetta eru dýr sem lækka sig ekki í vinnunni,- hafa ekki í sér öryggið og yfirvegunina. Það sem fylgir oftast hæfilegu " auga " og fjarlægðargeninu sem oft fylgir með.
Hundarnir sem voru með of mikið " auga " svo næmir að þeir " frusu " einhverstaðar úti á mörkinni og högguðust ekki nema kindahópurinn hreyfði sig voru líka hvimleiðir,- en í hina áttina.
Lítið af slíkum í tamningadýrum í dag.
Já, einhverra hluta vegna virðast of margir ekki vera að leita að eða halda þessum eiginleika við í dag.
Skrifað af svanur
- 1