Færslur: 2014 Júní
17.06.2014 21:35
Sleppitúr 2014 .
Ég sleppti fyrsta degi sleppitúrsins, Hafnarfjörður - Mosfellsdalur.
Finn mig kannski ekki alveg í því að ríða milli þéttbýlisstaða eða þannig.
Sleppitúrinn hjá mér felst annars í því að hrossunum er ekið til einhvers staða á suðvesturhorninum þar sem slegist er í hóp með allskonar öndvegisfólki sem er vel þess virði að eyða með nokkrum dögum í hestaferð vestur á snæfellsnes..
Hér er allt að verða klárt í Mosfellsdalnum en sveitamanninum leist nú ekki meira en svo á að leggja af stað með reksturinn út á malbikið og þvera Þingvallaveginn eftir nokkuð hundruð metra.
Þá átti síðan eftir að sleppa framhjá Gljúfrasteini, golfvelli og ótal hliðarvegum áður en reiðgötunni til Þingvalla var náð. Allar áhyggjur fuku þó út í veður og vind þegar komið var í hnakkinn . Trússbíllinn lokaði Þingvallaveginum meðan við sprautuðumst framhjá og fyrr en varði vorum við á góðri siglingu austur eftir úrvals reiðgötum.
Það fylgir mikill farangur með í svona ferð en sveitalúðinn kemur áhyggjulaus inn í þetta, veskislaus og tímalaus aðsjálfsögðu. svo er hann bara rukkaður um hrossahaga, gistingu og eigið fóður einhverntímann seinna. Og einhverra hluta vegna eru það alltaf ótrúlega lágar tölur sem sjást þar.
Hér erum við á leiðinni Þingvellir - Skorradalur. Þarna vorum við reyndar komin inn í fyrsta og eina alvöru aukaævintýri leiðarinnar, á vitlausri leið í Skorradalinn.
Þegar það uppgötvaðist var tekin 90 gr. beygja og leitað að greiðfærri leið til að rétta sig af. Þessu kindagata reyndist ágætlega til þess fallin til að byrja með. Trússbíllinn sést í fjarlægð .
Það var svo ánægjuleg tilfinning að vera hér að komast á rétta slóðann niður í dalinn. En trússararniru létu hinsvegar ekki af villum sínum og skiluðu sér ekki til byggða fyrr en undir miðnætti. Ekki skynsamlegt að fara eftir fyrirmælum einhverrar konu vestur í amríkunni þegar ekið er á ómerktum línuvegum.
Þó þeirra væri auðvitað pínulítið saknað voru það þó fyrst og fremst matföngin og svona " sitthvað " smálegt annað sem fór að vanta tilfinnanlegar eftir því sem leið á kvöldið.
Línuvegurinn góði sem villst var inná var svo enginn draumareiðvegur Þriðji dagurinn lá síðan uppúr Skorradalnum eftir óljósri æfafornri götu yfir í Lundarreykjadal, sullast niður hann og síðan að Hvítárbakka eftir mjög skemmtilegum krókaleiðum sem enduðu niður með Flóku og síðan Hvítá. Þaðan var síðan haldið að Grímsstöðum næstsíðasta daginn.
Hér er farið að halla niður í Lundarreykjadalinn og reynt að þræða gömlu götuna sem sást svona öðru hvoru.
. Síðasti dagurinn var svo í stíl við alla hina, hlýtt og sól öðru hvoru. Þá var farin hefðbundin leið að Kaldá og síðan með Kolbeinsstaðarfjalli að Mýrdal. Um eyðibýlin Rauðamel, Syðri og Ytri, - með lokaáningu í Hótel Eldborg en þaðan er örstutt í endastöð Söðulsholt.
Þessi 2014 árgerð af sleppitúr var sérlega ánægjulegur og hnökralaus í einstakri veðurblíðu.
13.06.2014 19:53
Hvolpar til sölu
Efnilegir hvolpar til sölu . 3 rakkar . Hafa fengið fyrstu sprautu við parvo, eru ormahreinsaðir og örmerktir, tilbúnir til afhendingar.
M. Rósa frá Giljahlíð SFÍ no. 2011-2-0035. F. Neró frá Dalsmynni SFÍ no. 2013-1-0018. Móðirin einungis verið tamin í hlýðni og hundafimi (Agility) og er frábær þar. Faðirinn er auðtaminn og efni í ákveðinn, yfirvegaðan,öflugan smalahund. Hægt er að láta fylgja hvolpunum samkomulag við Svan í Dalsmynni um 1-4 vikna tamningu næsta vetur ásamt leiðsögn við uppeldi. Verð 50.000 kr. + tamning. Áhugasamir hafi samband við Guðnýju, Dalsmynni í síma 895 6380
Aron Sölvi með Spuna og Spegil
Aron Sölvi með Spaða og Vilmu ( seld)
01.06.2014 22:46
Sauðfé á fjall og sveitarstjórn kosin
Hlíðin tók vel á móti undanfarahópnum í dag í þokusudda en hlýju veðri.
Þetta er með alfyrsta móti sem ég prófa að setja hóp uppfyrir en svo ræðst framhaldið af því hvort þær tolla innfrá eða leita til baka óánægðar með hvað í boði er.
Mér finnst gróðurinn vera kominn mun lengra en um 12 júní í fyrra þegar ég byrjaði að setja uppfyrir.
Enda líst mér ekkert á hvað styttist í slátt.
Það voru svo framdar sögulegar kosningar í Eyja - og Miklaholtshrepp í gær eða alvöru listakosningar í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins.
Kjörstjórnin frá v. Jón í Kolviðarnesi formaður. Ingunn í Holti og Guttormur í Miklaholtsseli.
Hér tekur Valgarð í Gröf, kosningarstjóri F listans við seðlinum sínum í byrjun kosningar að öllum formlegheitum loknum.
Kjörstjórnin þurfti að kynna sér rækilega hvernig standa ætti að þessu og gerði þetta allt með miklum sóma.
H listinn Betri byggð fékk 55 atkvæði og 3 menn.
Eggert Kjartansson á Hofstöðum sem er oddvitaefni listans. Atli Sveinn Svansson Dalsmynni og Katrín Gísladóttir á Minni Borg.
L listinn Sveitin, fékk 43 atkvæði og tvo menn.
Þröst Aðalbjarnason Stakkhamri og Sigrúnu Erlu Eyjólfsdóttir á Vegamótum.
Þarna var trúlega slegið þátttökumet því 95 % kjósenda mættu á kjörstað. 99 gr. atkvæði og var 1 atkvæði úrskurðað ógilt.
Þetta verður öflug sveitarstjórn og ætti að geta unnið vel saman að framgangi góðra mála í sveitinni.
Til hamingju með þetta öllsömul.
Skýringin í tilurð listakosningar er í bloggi hér neðar síðan 5 maí.
- 1