Færslur: 2014 Janúar
13.01.2014 20:34
ábyrgðir og endurheimtur .
Maður verður nú að hafa trú á því sem verið er að gera sagði ég borubrattur.
En færðu þá bara ekki alla í hausinn aftur, þegar þeir stækka og verða leiðinlegir spurði viðmælandinn með efasemdarhreim í röddinni.
Jú svaraði ég glottuleitur, - ef eigendurnir vilja ekki eiga þá lengur.
Hann hafði spurt mig hvort ég væri virkilega að selja BC hvolpa með ársábyrgð, sem ég játti greiðlega.
En ef þeim er rústað í uppeldinu spurði hann , reynslubolti sem vissi hvar hættan lá þegar fjárhundsefni er annarsvegar.
Mér fannst þetta ekki áhugavert umræðuefni, sagðist velja kaupendur af mikilli kostgæfni og sneri umræðunni að heimtum og smalamennskum.
Nú eru tamningarnar að komast á fullt hjá mér og byrjunin er býsna skemmtileg því gotið hennar Korku sem er 10 mán. er mætt til móðurhúsanna í tamningu.
Og það er ljóst að þar verður engu skilað.
Það er alltaf skemmtilegt að sjá hvað svona endurheimtur kannast vel við allt en þó aðeins séu 8 mán. síðan þessir yfirgáfu æskustöðvarnar, ætla ég ekki að halda því fram að þeir þekki mig eða móðurina aftur. En þeir þekkja kallflautið og ótalmargt annað situr í undirvitundinni hjá þeim.
Bræðurnir voru með ýfingar þegar þeir hittust allir sama daginn en gamall reynslubolti veit að ekkert er betra en láta þá mæðast saman í góðum fjórhjólaskver. Sama lögmálið og að svita hross úr öllum áttum saman í góðri ferð í gamla daga.
Nú er þriðji námsdagurinn liðinn og þó útlitið á systkinahópnum sé ekki mjög líkt og þetta séu fjórir mismunandi karakterar, er margt sláandi líkt þegar kemur í vinnuna.
Trúlega hægt að gera eitthvað nothæft úr þeim í rólegheitunum.
09.01.2014 21:39
Metaregn í gangi ;) - og ýmislegt jákvætt í kortunum :) .
Það voru set tvö met í Eyjarhrepp hinum forna í dag.
Enda búa þar " næstum " eintómir snillingar.
Fyrra metið verður nú kannski erfitt að rekja til þeirra, en það var öflugt lognmet á því herrans ári 2014.
Megi það verða margslegið á þeim tíma sem eftir lifir árs :) .
Hitt metið verður hinsvegar rakið þráðbeint til nokkurra öflugra Eyhreppinga sem slógu öll hraðamet við að hreinsa útúr öllum stíum Hestamiðstöðvarinnar í Söðulsholti.
Reyndar hefur þessi gerningur ekki verið leikinn áður á einum degi.
Þetta var kærkomin tilbreyting fyrir þessar eðalvélar og góð æfing fyrir akuryrkjuna sem mun bresta á fyrr en varir.
Stíurnar sem eru 40 cm. djúpar voru orðnar ágætlega nýttar, enda hafði planið verið að tæma þær um miðjan des.
Hér er búið að hreinsa út úr annarri lengunni í stærra húsinu.
Hálmun lokið og bara eftir að loka milligerðunum og festa þær með 2 skrúfum, hverja.
Byrjuðum að keyra út kl 9 og dæmið búið um 5.
Svo er bara að endutaka leikinn fyrir sumarið :) .
Í Hestamiðstöðinni er allt á fullu við tamningu og þjálfun, tæp 30 á járnum bæði frá búinu og öðrum.
Og ýmislegt bendir til þess að nú sé að lifna aðeins yfir sölunni sem er orðið virkilega tímabært.
Já , eru ekki allir á því að það sé sitthvað jákvætt í kortum nýbyrjaðs árs ??
07.01.2014 19:54
Þokuráf og vinahringingar.
Já,- nú er allt að gerast í sveitinni .
Númer eitt er að birtutíminn lengist jafnt og þétt. Það er alltaf jafn ánægjuleg þróun.
Og helvítis norðanrokið sem er búið að blása af miklum djöfulmóð í um 3 vikur gaf verulega eftir í dag.
Þriggja vikna stöðugt rok tekur í skal ég segja ykkur, og ég sem er með veðurþolnari mönnum var alveg að tapa mér.
Þoli vel svona 2 vikur en .................................
Nú er komin glæný talva fyrir framan mig svo ég get snúið mér af miklum krafti að ýmisskonar ritstörfum og allskonur timaeyðslu á netinu.
Ég er nánast enginn tölvumaður, lít á fyrirbrigðið sem vinnutæki og reyni að komast af með eins litla þekkingu á því og mögulegt er.
Þegar skipt er um græjuna er ég í vondum málum því nú er allt í einu komið annað umhverfi og ýmislegt horfið eða hefur breytt sér svo enginn hlutur er á sínum stað lengur. Þetta er svona eins og að ráfa um í blindþoku á ókunnugu landsvæði þar sem ég þekki engin kennileiti.
Þá er nú gott að geta hringt í vin til að leiðsegja mann til byggða . ;)
Síðast en ekki síst eru svo jólin búin, en það er alltaf jafngott að hafa þau fyrir aftan sig, án þess að ég rökstyðji það frekar.
Þrátt fyrir þokuna á tölvuleiðunum er maður fullur bjartsýni á nýbyrjuðu ári. Allt útlit fyrir að tekist hafi ágætlega hjá hrússunum að sinna skyldum sínum og kýrnar leika við hvern sinn fingur þessar vikurnar.
Meira að segja heillangt síðan komið hefur upp júgurbólga sem er alltaf jafn óvelkomin.
Nú fara fyrstu hundarnir að detta inn í námsferlið sitt í vikunni, en það er alltaf jafn spennandi að rýna í góð fjárhundsefni. Lesendur síðunnar fá væntanlega meira en nóg af lesefni um það áður en lýkur.
Já , bara allt að gerast :) .
- 1
- 2