Færslur: 2012 Maí

27.05.2012 08:05

V.V.V.sýkin,hvítasunnuhvellur og sauðburðarlok.

 Það hefur trúlega verið uppúr 1965 sem vetrarrúningur á fénu fór að ryðja sér til rúms.

Áður var oftast smalað til rúnings seinnipart júní á þessu svæði hér enda fé komið um öll fjöll á þeim tíma.
 Vetrarrúningurinn var tekinn bratt að hætti íslendinga og var oft verið að alrýja fé frameftir aprílmánuði. Þá var fóðrun , aðbúnaður og heybirgðir með öðrum hætti en nú og oft voru ærnar ansi strípaðar þegar kom að því að setja þær út með lömbunum.

 Það var þá sem VVV veikin átti til að stinga sér niður ef gerði slæm rigningar eða kuldaáhlaup.

V.V.V. útleggst sem " vanhöld vegna vetrarrúnings."

Ég minnist þess eftir eitt hvitasunnuáhlaupið, sat einn sveitunginn uppi með nokkra tugi heimalinga.

Margir aðlöguðu sig svo veðráttunni eins og gerst hefur gegnum aldirna og skildu eftir hluta reyfisins á kindinni (a.m.k. því eldra) sem skipti svo sköpum þegar illa voraði.

 Stórrigningin sem gekk yfir síðasta sólarhring hefði gengið nærri einhverri ánni á þessum tíma þó nú slyppi þetta trúlega víðast fyrir horn.


 Þessar báru sig nokkuð vel í gærmorgun og þær best settu ullarlega héldu sér við beitina eins og ekkert væri að veðrinu.



Það var skýlt sér á bakvið það sem nærtækast var enda féð mislífsreynt í að finna á sér veður og verjast því.



Þessi gamla og útsjónarsama ær var bara í fínum málum með lömbin sín.

 Nú er brostin á sól og hiti og ekki annað að sjá í kortunum.
 Vegna veðurspár hefur ekkert verið sett út hér í nokkra daga svo nú verður tekið til hendinni í dag og morgun og allt sett út sem hæft er í það.

Tvær ær eru óbornar, önnur á tal síðast í júní, hin á nokkra daga eftir.

Og ég sem er orðinn svefnléttur með aldrinum og dugar oftast 5- 6 tíma svefn er búinn að sofa a.m.k. 12 klst. síðasta sólarhringinn.

Gæti hugsanlega átt aðeins meira inni hjá  Óla Lokbrá  eftir síðasta mánuðinn


21.05.2012 05:02

Sjaldséðir hvítir og aðrir fuglar.( Himinsins.)

 Það má segja að yfir um mig og allt í kring, heyrðist í Hrossagauknum þegar ég laumaðist inn í kaffi og bloggpásu núna í morgunsárið.
Lóan kom líka sterk inn fuglasinfóníunni, sem var var óvanalega fjölbreytileg í glampandi morgunsólinni og logninu.



Nú var Stokkandarsteggurinn mættur makalaus á tjörnina og skvaldraði mikið við sjálfan sig.
Eða kannski mig?
. Trúlega hefur frúin verið að gæta bús og væntanlegra barna. Þeim líst  ekki sambýlið við hunda og ketti friðvænlegt, gera sér hreiður einhversstaðar í nágrenninu og mæta ekki með ungana á tjörnina fyrr en þeir fara að stálpast.



 Í Söðulsholti er hvíti stelkurinn mættur fjórða sumarið í röð. Þessar myndir hennar Iðunnar af honum eru í fullu gildi þó þær séu nú ekki síðan í vor.



 Hér var hann að sýna tamningartrippunum hvernig ætti að bera fæturnar.



 Og hérna hefur hann trúlega verið að leika engil.



 Hér er hann svo farinn að átta sig á hvað er í gangi og stillti sér upp rétt eins og hann væri að skella sér í forsetaframboð.



 Ég sá nú reyndar engan svona á leiðinni inn áðan, enda passa þeir illa í morgunkórinn hér, þó þeir séu" fjarska " myndarlegir á flugi.



Ekki nærri eins gæfulegir jarðfastir og augnaráðið alltaf jafn djö. kalt og illilegt.



 Síðast en ekki síst blönduðu þessir fuglar sér sterkir inn í morgunkórinn.

17.05.2012 23:52

Flas er ekki til fagnaðar.

Já. Það vorar hægt og örugglega þessa dagana.

 Ef eitthvað er svo að marka málshættina, sígandi lukka er best, góðir hlutir gerast hægt og flas er ekki til fagnaðar, þá lítur þetta alveg meiriháttar vel út.( Eða þannig).

 Það passaði nákvæmlega að þegar vistarverur sauðkindanna voru farnar að bólgna út vegna þrengsla var hægt að fara að setja út lambfé í gær ( 16 Maí) með góðri samvisku.



 Þetta var fyrsta lambærin í Dalsmynni út þetta vorið. Smá saga á bakvið hana sem ekki verður færð til bókar núna.



   Slatti af gemlingum yfirgáfu dekrið sitt í dag. Þeir fengu sérmeðferð og fá gæðatún í nokkra daga.



 Hún Korka " litla"  aðstoðar mig ásamt Dáð í þessu stússi  og þó hún komist trúlega aldrei með tærnar þar sem Tinni faðir hennar hafði skottendann er henni nú ekki alls varnað.



 Og svona litu tún og fjöll út í þessum sælureit í dag og mesta furða hvað túngrösin læðast upp þrátt fyrir ríkjandi næturfrost síðustu vikuna.



  Hvort sem það er svo nauðsynlegt eða bara fullkomnun fáránleikans að brenna sinu líta " brunarústirnar " svona út í dag og bjóða féð velkomið til snæðings. Sinuflóarnir verða hinsvegar heldur óárennilegir til beitar frameftir sumri.



 Hér skutla svo Dáð og Korka nokkrum á eftir mér yfir þjóðveginn þegar kom lag  fyrir umferðinni.




 Mjór er mikils vísir hugsaði ég svo, þegar kíkt var á byggakurinn sem fyrst var sáð í þetta vorið.
Samkvæmt félaga Jónatatan eiga þessar frostnætur ekki að hafa áhrif á uppskeruna á þessum akri þar sem ekki er lengra liðið frá sáningu en það að plantan er enn að taka næringu úr sáðfræinu.



 Nú verður bóndinn á flækingi á morgun, en svo verður haldið áfram að róta út lambfénu þar til stóra lægðin kemur askvaðandi með úrhellið sem annaðhvort verður í föstu eða fljótandi  og allt fer í klessu.

Jahá , tóm gleði framundan.


Flettingar í dag: 2678
Gestir í dag: 84
Flettingar í gær: 668
Gestir í gær: 92
Samtals flettingar: 650776
Samtals gestir: 57960
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:13:56
clockhere