Færslur: 2010 Október

26.10.2010 21:57

Hvolparnir og Snilld.


 Ég hef undantekningarlaust verið farinn að gefa hvolpunum startfóður  með,  8 - 10 daga gömlum þegar gotin hafa verið svona stór.( 7 +)

 Þar til núna.

 Snilld hefur höndlað þetta alveg með eindæmum vel, étið eins og hestur og flóðmjólkað.



 Tveir hvolpanna hafa verið vigtaðir reglulega og eru að þyngjast um 50 - 60 gr á dag.



 Hér er verið að vigta dömuna en bletturinn á enninu á henni sem er alveg hjartalaga hefur eitthvað ruglast við þetta.



 Þetta er annar hundanna en hér er farið að rifa vel í augun á hvolpunum.  Nú eru þeir að verða hálfsmánaðar gamlir og farnir að skríða úr bælinu sínu til að létta á sér enda eru allir hundar fæddir snyrtipinnar þó mannskepnunni takist nú oft að rústa þeim eiginleika.

  
 Þessi snillingur hér fyrir ofan náði fremsta spenanumog nýtti sér hann með miklum ákafa.



 Ég gaf þeim fyrst í dag uppleyst hvolpafóður og þeir voru snöggir að læra átið. 

Nú verður farið að gefa þeim með og þá verður tækifærið notað til að venja þá við lágt kallflaut sem þeir munu verða fljótir að læra. Enda mamman með allra viðbragðsneggstu hundum að hlýða kallflautinu og reyndar skipunum yfirhöfðuð ef ákafinn tekur ekki af henni og mér ráðin.

Það er svo skemmtilegt að sjá hvað ágætir gestir heimasíðunnar hafa verið áhugasamir að skoða myndaalbúmin mín síðustu dagana. 

24.10.2010 21:57

Tekið á því í eftirleitum.

 Já það var tekið alveg rosalega á því, í eftirleitum um helgina.

 Og svona var nú komið fyrir félaga Vask í kvöld.




 Nú er ég þó oftast að fást við 3 - 4 ættlið aðkomufjár á svæðið ( eftir að "aðkomuféð" fór í útrásina)og þó ekkert skorti á baráttuviljann og löngunina til að sleppa er hlýðnin við hundana orðin fín hjá þeim langflestum.

 Í haust tókust leitirnar hér mjög vel og það litla sem var eftir, sótt fljótlega eftir leitir.
Það fé sem nú var á svæðinu hefur flest sloppið úr leitum á nærliggjandi leitarsvæðum .

 Þó ég beri mig mannalega með 2 ára tíkina mína vantar helling á að hún hafi reynslu til að duga  í þetta hark. Nú gengur ekki að skilja eftir uppgefið eða tvístra hóp með smá klúðri.

 Vaskur er sá eini sem dugar og er alveg pottþéttur í nánast öllu sem kemur upp í þessari glímu við " aðkomuféð" .

 Þetta er býsna algeng sjón þegar ég næ uppfyrir hæðina sem hann og rollurnar hurfu uppfyrir í mörg hundruð metra fjarlægð.



 Búinn að dáleiða rolluna, lömbin bæði á sínum stað og auðveldur eftirleikurinn að koma henni af stað í rétta átt.

 Það var byrjað á að sækja kindur í Selfjallið á föstudaginn. Þar voru að vísu 5 í stað 2 sem ég vissi af en það kom ekki að sök og gekk vel að ná þeim á bílinn. Allar frá vinum mínum á Austurbakkanum.
 Gærdagurinn var hinsvegar strembinn enda von á mesta hasarnum þá.

Og nú hitti ég á alvöru vitleysing sem minnti mig á gömlu dagana. Að sjálfsögðu svört.

 Þær voru tvær einlembur austan við Svörtufjöllin og sú svarta var fljót að taka sprettinn þegar hún sá mig. Fyrst beint á fjallið  en þegar hún sá hundinn birtast fyrir framan sig stoppaði hún góða stund , svo var spretturinn tekinn í hina áttina.

 Ég vissi af tveim lömbum sunnan við mig og tókst að stýra hlaupunum þangað.
Sú svarta skeytti hvorki um lambið sitt eða vinkonu en hélt bara sprettinum í þá átt sem hausinn á henni sneri í það og það skiptið.

Það var langt til byggða og ljóst að þetta dygði ekki ef koma ætti þessu öllu niður.

 Vaskur var settur í málið og sem betur fer var surtla tvíreifa sem kom öllum vel meðan henni var sýnt fram á að nú væru breyttir tímar frá fyrri leitarsvæðum.(Allar myndatökur voru bannaðar.)

 Það var síðan endað á því seinnipartinn í dag að sækja tvö lömb í Hafursfellið. Þau hafa komið einhversstaðar  að í gærkveldi eða morgun.  Eflaust hefðu þau getað sagt mér mikla lífsreynslusögu ef við töluðum sama málið.

 Já svona var skrapað saman 17 kindum um helgina.

Allar frá vinum mínum á Austurbakkanum.

 Bara svona til að sýna þeim að mér þykir vænt um þá líka.emoticon

24.10.2010 13:06

Þegar forsetinn brá sér í sveitina varð allt .......

 
 Forseti nemendafélags MH brá sér í óopinbera heimsókn í sveitina og þá fóru undarlegir hlutir að gerast. sjá HÉR.

Flettingar í dag: 6
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 543
Gestir í gær: 56
Samtals flettingar: 723195
Samtals gestir: 61251
Tölur uppfærðar: 29.1.2025 00:26:33
clockhere